Gott að byrja árið á sigri

Það er gömul lumma að halda því fram að jólasteikin flækist fyrir körfuboltamönnum í fyrsta leik eftir jól. Það virðist þó ýmislegt til í gömlum lummum því leikur Tindastóls og ÍR í Síkinu í kvöld var ekki til útflutnings. Stólarnir gerðu þó nóg til að eigna sér stigin tvö sem í boði voru. Lokatölur 79-68 eftir sterkar lokamínútur heimamanna.

Strax í upphitun mátti greina að menn virtust vera að afjólast, rólegheitin ansi áberandi. Það kom á daginn að liðin fóru ansi rólega af stað. Fyrirliðinn Helgi Rafn var þó í miklum ham en það fylgdu fáir með að þessu sinni. Staðan var 6-9 eftir fimm mínútna leik en Stólarnir réttu úr kútnum og voru yfir 18-17 eftir fyrsta leikhluta. Jerome Hill, sem átti fínan leik, gerði fyrstu tvær körfurnar í öðrum leikhluta en Stólunum mistókst að búa til almennilegt forskot. Gestirnir spiluðu ágæta vörn og hreyfingin í sóknarleik Tindastóls var döpur. Reyndar voru skyttur beggja liða úti á þekju í leiknum og í raun ekki margt sem gladdi augað nema þá helst afburða slök vítahittni gestanna. Dómararnir höfðu haft með sér skrefateljarann í leikinn og dæmdu skref ótt og títt. Staðan í hálfleik var 36-32.

Ágætis stemning var í ÍR-ingum í upphafi síðari hálfleiks og þeir jöfnuðu leikinn 36-36. Pétur setti þá í sjaldgæfan þrist en mest náðu Stólarnir sex stiga forystu í leikhlutanum eftir að það kviknaði örlítið ljós á Darrel Lewis, sem var óvenju rólegur í kvöld. Staðan var 56-53 að loknum þriðja leikhluta og það var Darrel Flake sem gerði fyrstu körfuna í fjórða leikhluta. Góður kani ÍR-inga, Jonathan Mitchell, afgreiddi niður þrist í næstu sókn gestanna en síðan kom ágætur kafli þar sem Hill og Flake bjuggu til sjö stiga forskot fyrir Stólana. Þetta bil náðu gestirnir ekki að brúa og smá saman jókst munurinn þegar gestirnir gerðust örvæntingarfullir.

Jerome Hill var bestur í liði Tindastóls. Eins og áður hefur komið fram hafa margir liprari leikmenn spilað með liði Stólanna en Hillarinn er seigur undir körfunni og grimmer í fráköstunum. Hann var með 32 framlagsstig í leiknum; skilaði 25 stigum og hirti 12 fráköst. Lewis var með 17 stig en var að ströggla framan af leik. Pétur átti sömuleiðist ágætan leik og skilaði 15 stigum og fimm stoðsendingum.

Hjá ÍR voru Mitchell og Sveinbjörn Claessen mjög góðir en breiddin var meiri í liði Tindastóls. Þannig voru aðeins sex leikmenn sem skoruðu fyrir ÍR og framlag bekksins aðeins þrjú stig en 16 hjá Stólunum. Liðsmenn Tindastóls tóku talsvert fleiri fráköst, 33 á móti 22 ÍR-inga.

Aðalmálið í kvöld var þó að ná í sigur og hrista liðið aðeins saman fyrir átökin framundan. Næsti leikur Tindastóls er föstudaginn 15. Janúar en þá mæta strákarnir í Garðabæinn og spila við Stjörnuna.

Stig Tindastóls: Hill 25, Lewis 17, Pétur 15, Flake 9,  Helgi Viggós 4, Ingvi 3, Sigurður Páll 2, Svavar 2 og Viðar 2.