Auðveldur sigur á fjölbrautaskólapiltum í Iðunni

Í gærkvöldi fór síðasta umferðin fram í deildarkeppni Dominos-deildarinnar í körfuknattleik. Ljóst var fyrir leikina að KR-ingar voru orðnir deildarmeistarar en Keflvíkingar og Stjarnan börðust um annað sætið og þar hafði Stjarnan betur. Lið Tindastóls, sem vann í gærkvöldi auðveldan sigur á liði FSu á Selfossi, endaði í sjötta sæti deildarinnar og spilar því gegn Keflvíkingum í úrslitakeppninni sem hefst 17. mars.

Tindastólsmenn léku án Anthony Gurley í gærkvöldi og Dempsey spilaði í aðeins rúmar 10 mínútur enda voru yfirburðir Stólanna miklir í leiknum og því gott tækifæri til að blóðga aðeins óreyndari leikmenn liðsins sem stóðu sig með prýði. Tindastóll komst í 0-6, 6-16 og hafði yfir að loknum fyrsta leikhluta, 16-34. Heimamenn löguðu stöðuna í byrjun annars leikhluta en Viðar, sem hefur sprungið út í síðustu leikjum, kom Stólunum aftur í fluggírinn og í hálfleik var staðan 34-61 og leik nánast lokið.

Pétur og Helgi Viggós fóru fyrir sínum mönnum í síðari hálfleik líkt og í þeim fyrri og spiluðu glimrandi bolta. Það verður þó að segjast eins og er að fyrirstaðan í vörn FSu var ekki nema að nafninu til. Heldur hægðist á Stólunum í síðari hálfleik enda voru Lewis, Dempsey og Viðar að mestu hvíldir. Staðan var 59-87 að loknum þriðja leikhluta og lokatölur leiksins urðu 82-114.

Öflugastir í liði Tindastóls að þessu sinni voru Helgi Viggós sem gerði 24 stig og hirti 13 fráköst og Pétur sem skilaði sömuleiðis 24 stigum en tók sex fráköst og átti sex stoðsendingar. Lewis, Viðar og Helgi Margeirs skiluðu allir 12 stigum. Stólarnir voru með 32% nýtingu í 3ja stiga skotum og fráköstuðu mun betur en heimamenn (31/51). Þá gerðust þau undur og stórmerki að Stólarnir voru 100% af vítalínunni (13/13) og vonandi veit það á gott fyrir úrslitakeppnina.

Rimma Keflvíkinga og Tindastóls hefst í Keflavík nk. fimmtudag en síðan verður leikið í Síkinu sunnudaginn 20. mars kl. 19:15. Liðið sem fer áfram þarf að vinna þrjá leiki og er næsta víst að búast má við æsispennandi og skemmtilegri viðureign milli liðanna.

Stig Tindastóls: Helgi Viggós 24, Pétur 24, Viðar 12, Helgi Margeirs 12, Lewis 12, Hannes 9, Dempsey 7, Svabbi 6, Ingvi 6 og Sigurður 2.