Toppþjálfarinn Pieti Poikola tekur við liði Tindastóls

Körfuknattleiksdeild Tindastóls hefur samið við Pieti Poikola um að taka við þjálfun meistaraflokks Tindastóls fyrir næsta tímabil. Pieti, sem er margverðlaunaður þjálfari frá Finnlandi, þjálfar einnig danska landsliðið og óhætt að fullyrða að Tindastólsmenn hafi heldur betur gert vel í því að krækja í einn áhugaverðasta þjálfara Evrópu um þessar mundir.

Poikola var ráðinn í framhaldi af því að Israel Martín, hinum geðþekka spænska þjálfara Tindastóls, bauðst annað spennandi verkefni utan landsteinanna. Stefán Jónsson, formaður körfuknattleiksdeildar Tindastóls, segir deildina þakka Israel gott samstarf og góða vinnu í vetur og óska honum alls hins besta.

Pieti Poikola er fæddur í Oulu í Finnlandi árið 1977. Hann er verkfræðingur að mennt en hefur starfað sem körfuknattleiksþjálfari atvinnumanna frá árinu 2008. Hann var leikmaður í finnsku fyrstu deildinni árin 1992-1996 en hefur þjálfað nær óslitið síðan 1997.

Poikola hefur þjálfað efstu deildar lið Tampereen Pyrintö í Finnlandi sex tímabil frá árinu 2008 og á þeim tíma þrívegis gert lið sitt að finnskum meisturum en finnska deildin er gríðarsterk. Vinningshlutfall Poikola með TP er 70% (179 sigrar/77 töp) yfir venjulegt tímabil en 62% í úrslitakeppni (39/24).

Hann tók við karlalandsliði Danmerkur árið 2013 og mun að sögn Stefáns þjálfa það áfram. Poikola mun þjálfa meistaraflokk Tindastóls auk þess að stýra unglinga- og drengjaflokkum og kenna við körfuboltaakademíu FNV á Sauðárkróki. Samningur Kkd. Tindastóls við Poikola gildir til eins árs með möguleika á framlengingu.