Tap gegn sprækum Njarðvíkingum í gömlu Ljónagryfjunni

Tindastólsmenn komu niður úr skýjunum eftir sigurinn gegn KR þegar þeir mættu spræku liði Njarðvíkinga í Ljónagryfjunni suður með sjó í gærkvöldi. Hörmulegur annar leikhluti Stólanna setti þá í bobba en strákarnir náðu að jafna og komast yfir með harðfylgi en Njarðvíkingar náðu í framlengingu og þar höfðu heimamenn betur og sigruðu 107-99.

Leikurinn var jafn í fyrsta leikhluta en Njarðvíkingar spiluðu hörkuvörn með Loga Gunnars í miklum ham við að passa upp á Lewis. Í öðrum leikhluta lögðu Stólarnir varnarleikinn á hilluna og heimamenn gengu á lagið og voru yfir, 55-40 í hálfleik. Stefan Bonneau fór mikinn í liði Njarðvíkinga og endaði leikinn með 44 stig, 9 fráköst og 8 stoðsendingar. Átján af stigum hans í leiknum komu af vítalínunni og misnotaði hann ekki eitt einasta víti. Hjá Stólunum var það helst Dempsey sem var með lífsmarki framan af.

Í síðari hálfleik náðu Tindastólsmenn að þétta vörnina en það gekk þó illa að vinna á forskoti heimamanna. Þeir náðu muninum reyndar fljótlega niður í átta stig, 58-50, en þá náðu Njarðvíkingar 10-2 kafla undir handleiðslu Bonneau. Þannig virtust heimamenn svara gestunum í hvert sinn sem munurinn var minnkaður. Staðan 75-63 fyrir fjórða leikhluta. Í honum virtust Njarðvíkingar ætla að reyna að hægja á leiknum en þeir gera víst flest betur en það og smá saman brúuðu Stólarnir bilið. Martin var nú kominn með byssurnar Svavar og Helga Margeirs inná og það var Helgi sem setti niður sinn fyrsta þrist þegar fimm mínútur voru eftir og minnkaði muninn í fjögur stig, 81-77. Bonneau svaraði fyrir heimamenn en Svabbi setti þrist í næstu sókn og þegar rúm mínúta var eftir jafnaði slökkviliðsmaðurinn leikinn, 85-85, og virtust Stólarnir vera búnir að slökkva í Loga og félögum. Logi klikkaði á skoti í sókn Njarðvíkinga, Lewis tók frákastið og átti stoðsendingu á Darrel Flake sem setti niður þrist þegar hálf mínúta var eftir og staða Stólanna vænleg. Þegar þarna var komið hafði Bonneau farið af velli með krampa en það var varaskeifan hans, Ragnar Friðriksson, sem jafnaði með þristi úr horninu og Stólunum tókst ekki að skora í síðustu sókninni í venjulegum leiktíma. Staðan 88-88.

Njarðvíkingar voru alltaf fyrri til að skora í framlengingunni. Bonneau var þá aftur kominn til leiks en Tindastólsmenn voru án Péturs Bigga Rafns sem hafði fengið sína fimmtu villu í fjórða leikhluta. Stólarnir héldu í við heimamenn allt þar til mínúta var eftir en þá setti Hjörtur Einarsson niður þrist og staðan 100-95 og hann bætti síðan við tveimur stigum af vítalínunni áður en Helgi Margeirs gerði 3ja stiga körfu. Maður leiksins, Bonneau, setti niður tvö víti þegar 20 sekúndur voru eftir og tækifæri Stólanna runnið út í sandinn. Lokatölur 107-99.

Darrel Lewis endaði stigahæstur hjá Stólunum með 28 stig og hann tók að auki 10 fráköst. Dempsey var öflugur í fyrri hálfleik en hann endaði með 20 stig og 13 fráköst og Svavar Birgis gerði 16 stig, þar af fjögur 3ja stiga skot.

Njarðvíkingar tóku jafn mörg 3ja stig skot (13/35) í leiknum og skot innan teigs (21/35) en Stólarnir voru heldur sparsamari á sín 3ja stig skot (9/24) en nýtingin svipuð. Lið Tindastóls tók mun fleiri skot innan teigs (29/60) en nýtingin ekki nógu góð. Njarðvíkingar fengu síðan 30 víti (26/30) en Stólarnir 20 (14/20). Stólarnir hirtu 10 fráköstum meira en heimamenn eða 48 og þar af 19 sóknarfráköst.

Næsti leikur Tindastóls er í DHL-höllinni á mánudagskvöldið þar sem liðið mætir KR í undanúrslitum Powerade-bikarsins. Næstkomandi fimmtudag koma svo ÍR-ingar í heimsókn í Síkið. Áfram Tindastóll!

Stig Tindastóls: Lewis 28, Dempsey 20, Svavar 16, Flake 12, Pétur 8, Helgi Margeirs 6, Helgi Viggós 4, Ingvi 3 og Viðar 2.