Stólarnir komu úr jólafríi um miðjan þriðja leikhluta gegn Stjörnunni

Tindastóll og Stjarnan mættust í kvöld í hörkuviðureign í Síkinu á Króknum. Liðin voru fyrir leik í öðru og þriðja sæti Dominos-deildarinnar en þegar upp var staðið í kvöld voru það heimamenn sem höfðu tryggt stöðu sína í öðru sætinu en lokatölur voru 91-82.

Garðbæingar voru heldur grimmari í fyrsta leikhluta en liðin skiptust engu að síður á um að hafa forystuna. Varnarleikur Stólanna var ekki nógu beittur. Dempsey var góður í sókninni en það var Stjarnan sem var yfir, 24-26, að leikhlutanum loknum. Tindastóll byrjaði annan leikhluta vel og komst í 33-28 og um miðjan leikhlutann var staðan 39-32. Jarrid Frye og Justin Shouse minnkuðu fljótlega muninn með 3ja stiga skotum og Shousearinn kláraði hálfleikinn sterkt og virtist vart misnota skot. Engu að síður voru Stólarnir yfir í hálfleik, 47-44, og leikurinn æsispennandi og skemmtilegur.

 

Stjarnan hóf síðari hálfleik með leiftursókn á meðan hvorki gekk né rak hjá heimamönnum sem reyndu ítrekað fyrir sér utan 3ja stiga línunnar en þar var enginn heimamaður heitur í kvöld. Stjörnumenn voru sterkir í teignum og gerðu Tindastólsmönnum erfitt fyrir að sækja að körfunni. Á einni og hálfri mínútu í upphafi leikhlutans gerðu gestirnir 11 stig en Stólarnir aðeins eitt og staðan 48-55. Heimamenn reyndu að berja í brestina en gekk lítið og staðan var enn verri þegar leikhlutinn var hálfnaður, 54-65. Þá loksins small vörnin saman hjá Stólunum og Dempsey var eins og raketta um allan völl, verjandi skot og stelandi boltum og aðrir fylgdu í kjölfarið. Ingvi kom strákunum á bragðið með tveimur laglegum körfum og staðan 63-65 að þriðja leikhluta loknum eftir 9-0 kafla. Shouse gerði fyrstu körfu fjórða leikhluta en næstu 10 stig gerðu Stólarnir og Pétur kom liðinu í 73-67 með lay-uppi og fiskaði í leiðinni fimmtu villuna á Frye og var þá ljóst að róðurinn yrði gestunum erfiður. Ingvi setti þrist þegar fimm mínútur voru til leiksloka og munurinn 10 stig, 80-70 og skömmu síðar bætti Pétur við þristi og staðan 84-70. Þá hafði lið Tindastóls gert 30 stig á ellefu mínútum gegn 5 stigum gestanna!

Sigur Tindastóls í kvöld var dýrmætur því ef gestirnir hefðu farið með sigur af hólmi hefði aðeins munað tveimur stigum á liðunum. Munurinn á milli Tindastóls og næstu liða fyrir neðan er hins vegar 6 stig þar sem önnur úrslit voru Stólunum einnig hagstæð.

Myron Dempsey var magnaður í kvöld og er í frábæru formi. Hann gerði 31 stig, tók 11 fráköst og fiskaði 7 villur. Darrel Lewis hefur oft átt betri leiki en gerði engu að síður 18 stig og átti 8 stoðsendingar. Ingvi átti mjög góðan leik en hann gerði 11 stig, tók 7 fráköst, stal fjórum boltum og átti að auki 5 stoðsendingar. Pétur óx eftir því sem á leikinn leið og endaði með 12 stig og 7 stoðsendingar. Þá átti Svabbi fínan leik með 7 stig, 9 fráköst og 5 villur. Darrel Flake snéri til baka eftir meiðsli og spilaði 10 mínútur í kvöld en hann ætti að styrkja liðið enn frekar ef hann hefur náð að losa sig við meiðslin.

Í liði Stjörnunnar var Shouse að venju skeinuhættur en það náðist að loka betur á hann í síðari hálfleik. Hann endaði engu að síður með 26 stig. Dagur Jónsson gerði 16 stig en hitti ekki úr neinni af átta tilraunum utan 3ja stiga línunnar. Bæði lið voru með um 20% nýtingu úr 3ja stiga skotum, tóku álíka mörg fráköst en skotnýting Stólanna innan teigs var betri en gestanna.

Næst spilar lið Tindastóls við Þór Þorlákshöfn fyrir sunnan en síðan mætir topplið Íslandsmeistara KR í Síkið. Það verður vonandi eitthvað!

Stig Tindastóls: Dempsey 31, Lewis 18, Pétur 12, Ingvi 11, Helgi Rafn 7, Svavar7, Helgi Freyr 3 og Darrel Flake 2.