Stólarnir komnir í sterka stöðu eftir stórleik Lewis

Tindastólsmenn sýndu Haukum enga miskunn í Schenken-höll þeirra Hafnfirðinga í kvöld þegar heimamenn voru lagðir í parket næsta auðveldlega. Stólarnir áttu góðan leik bæði í vörn og sókn og höfðu yfirhöndina frá byrjun til enda en fremstur í flokki var Darrel Lewis sem var óstöðvandi í fyrri hálfleik. Staðan í einvígi liðanna er nú 2-0 fyrir Tindastól en þriðji leikur liðanna verður á Króknum á mánudag.

Israel Martin og félagar í Stólunum settu í fluggírinn strax í byrjun og komust í 0-10 og leiddu eftir fyrsta leikhluta 18-24. Í öðrum leikhluta rann mikið æði á Darrel Lewis og hann skoraði hverja körfuna af annari og rændi boltum upp á grín. Á fjórum mínútum breyttist staðan úr 21-26 í 23-42 og Stólarnir heldur betur komnir með frábæra stöðu. Þegar flautað var til hálfleiks var Lewis kominn með 22 stig og Dempsey hafði skilað sínu, með 10 stig og 13 fráköst. Hjá Haukum var hinn seinheppni Alex Francis vart kominn á blað. Staðan 30-48.

Haukum gekk ekkert að saxa á forskot Tindastóls í þriðja leikhluta og Ingvi Rafn, sem átti fínan leik í kvöld, kom muninum í 20 stig, 36-56, með einni af þremur 3ja stiga körfum sínum. Pétur Birgis hafði lítið eða ekkert skotið í leiknum í fyrri hálfleik og hann setti tvo þrista niður með skömmu millibili. Þá var komið að Helga Margeirs að setja í góða skotæfingu en það kom ekki að sök í kvöld að kappinn var ískaldur og dritaði aðeins niður einu af níu 3ja stiga skotum sínum.

Fyrir lokafjórðunginn munaði 20 stigum, staðan 49-69, og heimamenn þurftu kraftaverk til að koma sér inn í leikinn og sigra Stólana. Það var rétt síðustu fimm mínúturnar sem þeir fóru að minnka muninn eitthvað en komust næst Stólunum með síðustu körfu leiksins og þá munaði 12 stigum. Lokatölur 74-86.

Stólarnir fá því tækifæri á mánudaginn að sópa Haukum úr keppni en Haukarnir hafa svosem áður lent í þessari stöðu í úrslitakeppninni í ár; voru 2-0 undir gegn Keflvíkingum en snéru því dæmi við með glæsibrag. Kálið er því ekki sopið þó í ausuna sé komið og ljóst að Tindastólsmenn mega ekki gefa þumlung eftir gegn særðum Hafnfirðingum eftir helgi.

Í liði Tindastóls voru það Lewis, Dempsey, Pétur og Ingvi sem voru atkvæðamestir en hjá Haukum voru það aðeins Emil Barja og Haukur Óskarsson sem léku vel. Ekki er annað hægt en að geta þess að stuðningsmenn Tindastóls fjölmenntu í Schenken-höllina og voru klárlega í meirihluta þeirra ríflega 1400 áhorfenda sem talið var að hefðu séð leikinn. Það var líkast því að Stólarnir hefðu tekið Síkið með sér suður!

Stig Tindastóls: Lewis 28/9 frk, Dempsey 17/18 frk, Ingvi 13, Pétur 8/7 sts, Svavar 6, Flake 6, Helgi Viggós 5 og Helgi Margeirs 3.