Krambúleraðir krummar og kremkexétandi krókódílar!

Það er full ástæða til að leita í smiðju til hins kjarnyrta Kolbeins Kafteins þegar finna þarf fyrirsögn á skrif um fyrsta leikinn í einvígi KR og Tindastóls um Íslandsmeistaradolluna í körfubolta. Það fór nefnilega flest á annan veg en stuðningsmenn Tindastóls höfðu gert sér vonir um og ljóst að eftir rassskell í Frostaskjólinu þurfa Stólarnir að girða sig í brók og bretta upp ermar fyrir næsta leik.

Í stuttu máli þá tók KR forystuna í rimmunni eftir að hafa unnið stórsigur 94:74.

Stólarnir voru að vísu í ágætum málum í fyrsta leikhluta og höfðu þá í fullu tré við heimamenn. Staðan 22-19. Í öðrum leikhluta skelltu KR-ingar hins vegar í lás og hirtu nánast öll fráköst sem í boði voru og fóru inn í hlé með tuttugu stiga forystu, 51-31.

Um tíma í síðari hálfleik munaði þrjátíu stigum á liðunum og Tindastóli tókst aldrei að gera leikinn spennandi. Stólarnir héldu þó í horfinu þegar upp var staðið í síðari hálfleik en það dugði að sjálfsögðu skammt eftir þennan slæma annan leikhluta.

Þunga höggið kom skömmu fyrir leik þegar Myron Dempsey taldi sig ekki leikfæran. Leikmaðurinn öflugi hafði, eftir því sem Feykir kemst næst, fengið öxlina á Helga Viggós í augað á æfingu og það er nú engin venjuleg öxl. Dempsey hitaði upp fyrir leikinn en blindaðist hreinlega af ljósunum í DHL-höllinni, óttast menn að hornhimna hafi skaddast, og sat því í myrkrinu úti í rútu á meðan á leik stóð. Annað þungt högg var að Darrel Flake, sem átti fína seríu gegn Haukum, gat aðeins spilað í fyrri hálfleik og óttast menn að meiðslin sem hrjáðu hann fyrir áramót hafi tekið sig upp. Ekki beinlínis óskastaða fyrir Stólana en nú er bara að krossa fingur og vona að Eyjólfar hressist.

Hjá Tindastóli var Helgi Rafn Viggósson áræðinn og reyndi eins og hann gat. Hann endaði með 18 stig og 10 fráköst. Pétur Birgis (9 stoðsendingar og 11 stig) og Ingvi Ingvars reyndu hvað þeir gátu en strönduðu oft á vörn KR. Lewis fann sig engan veginn í leiknum og gerði aðeins 6 stig á 30 mínútum. Þriggja stiga nýting Stólanna var fín, 41% (12/29), og var Helgi Viggós með þrjú stykki og þá kom Sigurður Stefáns fjallbrattur inn og setti tvær í tveimur tilraunum.

Vinna þarf þrjá leiki til að verða Íslandsmeistari og fer annar leikurinn í rimmunni fram á Króknum á sumardaginn fyrsta. Það er deginum ljósara að Stólarnir þurfa allan þann stuðning sem mögulegur er og stuðningsmenn því hvattir til að láta ekki mótlætið trufla sig og fjölmenna með jákvæðnina á útopnu í Síkið. Áfram Tindastóll!