KR-ingar urðu meistarar í Síkinu

Það fór svo að lokum að lið KR reyndist of sterkt fyrir Tindastólsmenn í kvöld þegar fjórði leikur liðanna fór fram í Síkinu á Króknum. Titillinn fór því annað árið í röð í Vesturbæinn og KR-ingar verðugir meistarar. Þeir fengu hins vegar ekkert ókeypis í kvöld og Stólarnir börðust eins og ljón allan tímann. Síðustu mínúturnar voru hins vegar gestanna og þeir sigruðu 81-88.

Síkið var orðið vel fullt hálftíma fyrir leik og að þessu sinni var meira að segja slatti af KR-ingum í stúkunni. Stemningin var rosaleg og ekki skemmdi fyrir að nú var Myron Dempsey með þó kappinn virtist nú ekki alveg upp á sitt besta í upphitun. Að þessu sinni var það Sædís Bylgja, klædd skautbúningi, sem mætti með boltann til leiks og leikurinn fór vel af stað. Það varð strax ljóst að Darrel Lewis var í miklum ham hjá Stólunum – ekki það að kappinn virkaði eitthvað æstur heldur fór nánast allt í körfuna frá honum. Gestirnir voru þó skrefinu á undan. KR-ingar hittu vel og virtist nokk sama hver skaut. Craion dró til sín menn í teignum og gestirnir fengu opin skot utan 3ja stiga línunnar.

KR-ingar voru yfir að loknum fyrsta leikhluta, 18-25, og þeir náðu fljótlega tíu stiga forystu í öðrum leikhluta, 24-34. Þegar fimm mínútur voru til leikhlés var staðan 31-38 og fram að leikhléi náðu Stólarnir að spila hörkuvörn því KR bætti aðeins við einni körfu á meðan betur gekk hjá Stólunum. Þarna voru Dempsey og Viðar komnir inn í liðið og náðu að koma í veg fyrir að KR-ingar fengju góð skot. Í leikhléi munaði einu stigi, staðan 39-40 fyrir KR.

Lið Tindastóls kom alveg brjálað til leiks í síðari hálfleik og náðu strákarnir 10-0 kafla og stemningin alveg klikkuð. Vörnin var alveg mögnuð með Dempsey í fararbroddi og KR-ingarnir gerðu hver mistökin eftir önnur. Smásaman stilltu þeir þó kúrsinn og hófu að saxa á forskot Tindastóls. Þristar frá Darra, Brynjari og Pavel komu KR yfir og gestirnir leiddu að loknum þriðja leikhluta, 62-64.

Aftur komu Stólarnir alveg dýrvitlausir og Lewis, sem gerði 37 stig í leiknum, setti niður þrist og kom Stólunum í 73-68 þegar rúmar sex mínútur voru eftir. Í kjölfarið fékk síðan Darrel Flake sína fimmtu villu og Helgi Viggós var að spila með fjórar og þetta bitnaði að sjálfsögðu á varnarleiknum þar sem KR-ingar brutust hvað eftir annað upp að körfu Stólanna án þess að vörnin gæti beitt sér sem skildi. Á sama tíma stigu KR-ingar upp í vörninni og skyndilega varð sóknarleikur Tindastóls ákaflega þvingaður og mönnum gekk illa að finna skotfæri. Þegar um tvær mínútur voru eftir minnkaði Dempsey muninn í 77-80 en Helgi Magnússon setti niður opið 3ja stiga skot og eftir það voru Stólarnir að elta leikinn og því kunnu KR-ingar vel. Þrátt fyrir skelfilega nýtingu KR í vítaskotum undir lokin þá náðu Stólarnir ekki að nýta tækifærin til að minnka muninn og KR fagnaði því sigri, 81-88, og um leið Íslandsmeistaratitli.

Það voru ekki nógu margir sem stigu upp í kvöld hjá Stólunum til að liðið ætti alvöru möguleika gegn KR. Lewis dró vagninn allan tímann og setti sem fyrr segir 37 stig. Það tók Dempsey eðlilega svolítinn tíma að finna taktinn og var hann búinn að tapa nokkrum boltum áður en hann loks hrökk í gang, setti þá 18 stig og tók 12 fráköst. Sannarlega var það skarð fyrir skyldi að hann var ekki með í fleiri leikjum í einvíginu Pétur átti skínandi leik með 14 stig, sex fráköst og átta stoðsendingar og á mikið hrós skilið fyrir leiki sína í úrslitakeppninni. Aðrir náðu sér ekki á strik í kvöld í sókninni en varnarleikurinn var lengstum góður hjá Stólunum.

Í liði KR voru Craion og Pavel Ermolinskij frábærir og Darri, Helgi og Brynjar hittu ágætlega fyrir utan en hittni gestanna var talsvert betri en Stólanna í kvöld en á móti kom að að þessu sinni fráköstuðu Stólarnir mjög vel, 45 gegn 31 frákasti KR.

Stuðningsmannalið Stólanna sá til þess að það var góð stemning á öllum heimaleikjum liðsins í vetur og ekki búið að vera neitt smá gaman að sækja leikina. Að sjálfsögðu eru það þó leikmennirnir sem eiga stærstan þátt í fjörinu og alveg ljóst að árangur Tindastóls var langt umfram væntingar í vetur. Í hálfleik í kvöld var Íslandsmeisturum unglingaflokks Tindastóls fagnað og ljóst að ef svo fer fram sem horfir er framtíðin björt í körfunni á Króknum.

Til hamingju með Íslandsmeistaratitilinn KR-ingar. Áfram Tindastóll!

Stig Tindastóls: Lewis 37, Dempsey 18, Pétur 14, Viðar 4, Flake 4 og Helgi Viggós 4.