Góður sigur Tindastóls í síðasta leik fyrir jól

Skallagrímsmenn komu í heimsókn í Síkið í gærkvöldi og léku við lið Tindastóls í Dominos-deildinni í körfubolta. Gestirnir voru ólseigir til að byrja með og stóðu vel í Stólunum en í síðari hálfleik tóku heimamenn öll völd og fögnuðu sigri, 104-68, þegar upp var staðið.

Tindastólsmenn virtust ekki alveg tilbúnir í slaginn í upphafi leiks og hálfgerður kæruleysisbragur á liðinu. Páll Axel stríddi Stólunum í fyrsta leikhluta, kappinn er ekkert unglamb lengur en hann virðist enn geta hitt flugu á 50 metra færi eins og ekkert sé. Hann klikkaði varla á skoti í fyrri hálfleik og fann þá fjölina sína ítrekað þó hægt færi. Páll (19 stig) og Tracy Smith Jr. (29 stig) voru potturinn og pannan í leik Skallagríms en Skagfirðingurinn Sigtryggur Arnar Björnsson, sem hefur spilað vel með gestunum í vetur, náði sér engan veginn á strik í leiknum, kannski ekki síst vegna þess að Pétur spilaði góða vörn á hann. Stólarnir náðu góðum kafla undir lok fyrsta leikhluta og voru yfir, 29-21, að honum loknum. Vörn gestanna var góð í öðrum leikhluta en þá hvíldu Stólarnir bæði Lewis og Dempsey. Staðan í hálfleik 44-38.

Í síðari hálfleik keyrðu Tindastólsmenn upp hraðann og þegar þriðji leikhluti var hálfnaður þá sprungu gestirnir á limminu, en þeir voru búnir að spila góða vörn í leiknum. Stólarnir gengu á lagið, keyrðu yfir þá og sigruðu hálfleikinn með 30 stiga mun, 60-30.

Dempsey var hreint frábær í síðari hálfleik og samkvæmt leikskýrslu þá klikkaði hann aðeins á einu skoti allan leikinn (13/14), gerði 27 stig og tók 12 fráköst á 24 mínútum. Lewis var hálf þreytulegur að þessu sinni en gerði engu að síður 20 stig. Svabbi átti flottan leik með 16 stig, 12 fráköst og 6 stoðsendingar og þá var Pétur flottur með 14 stig,  11 stoðsendingar og fjóra stolna bolta. Helgi Rafn stóð í stórræðum í varnarleiknum en var óheppinn með villur og þá gladdi stuðningsmenn Stólanna að sjá Hannes Inga með góða innkomu. Annars má segja að líkt og í undanförnum sigurleikjum þá stóðu allir sig með miklum sóma og tapið gegn Haukum á dögunum horfið í snjóstorminn.

Stig Tindastóls: Dempsey 27, Lewis 20, Svavar 16, Pétur 14, Hannes 9, Helgi Viggós 6, Helgi Margeirs 4, Sigurður 3, Þráinn 3 og Ingvi 2.