Grátlegt tap gegn KR í framlengdum leik í Vesturbænum

Skagfirðingar kepptu á þremur vígstöðvum í sjónvörpum landsmanna í gærkvöldi og máttu bíta í það súra epli að fara halloka á þeim öllum. Frammistaðan var hins vegar til mikillar fyrirmyndar og geta keppendur í Útsvari, The Voice og körfuboltalið Tindastóls borið höfuðið hátt þrátt fyrir svekkelsið. Tindastóll tapaði fyrir liði Íslandsmeistara KR í Vesturbænum eftir æsispennandi og að lokum framlengdan leik. Lokatölur 80-76.

Leikurinn fór ekki vel af stað hjá Stólunum sem lentu fljótlega 9-1 undir. Jou Costa tók leikhlé og hrærði í sínum mönnum sem fóru að stíga aðeins í lappirnar í framhaldinu. Um miðjan fyrsta leikhluta var staðan 11-7 og var Ægir Þór að spila frábærlega fyrir heimamenn sem höfðu endurheimt tvo landsliðsdúdda úr meiðslum; Pavel Ermolinski og Helga Má Magnússon. Vörn KR-inga var sterk að venju og pössuðu þeir upp á að hleypa Lewis ekki í stuð. Það var Pétur Birgis sem steig þá upp, en hann var talsvert gagnrýndur af körfuboltaspekingunum Kidda Gönn og Hemma Hauks í stórskemmtilegum körfuboltaþætti Stöðvar2Sport á dögunum. Pétur var með nokkra tapaða bolta í leiknum en spilaði frábærlega, endaði með 21 stig og titilinn Sómi Skagafjarðar í lýsingu Svala Björgvinssonar á leiknum.

KR-ingar voru 20-15 yfir í upphafi annars leikhluta og nú var Costa búinn að taka til í varnarleik Tindastóls. Þetta var orðin alvöru barátta. Heimamenn í Vesturbænum eru þó með ansi mörg virk vopn í sínum hópi, líkt og Tindastólsmenn, og munurinn var yfirleitt þetta fjögur til átta stig KR-ingum í vil. Jerome Hill minnkaði muninn í 33-30 en hann var ekki nógu grimmur að sækja að körfunni í gærkvöldi. Brynjar Björns svaraði með þristi og síðan skiptust liðin á um að skora. Staðan í hálfleik 43-36 fyrir KR.

Stólarnir hófu síðari hálfleik vel, Pétur setti niður þrist og Lewis minnkaði muninn í 43-41. Aftur náði KR undirtökunum og komust í 52-43 en Pétur setti annan þrist í gegnum andlitið á Ægi og nú voru varnir beggja liða komnar upp á tábergið. Flake átti síðustu körfu leikhlutans og staðan 61-53.

Costa var ánægður með varnarleik Tindastóls og lagði áherslu á að halda KR í 20 stigum í lokafjórðungnum og þá ættu Stólarnir séns. Aftur byrjaði Pétur á því að setja niður þrist, Brynjar bætti við körfu fyrir KR og þá setti Viðar niður þrist úr vinstra horninu eftir sendingu frá Pétri. Þetta var leikur í lagi. Mikið var um tapaða bolta í leiknum og nú fór að bera á því að KR-ingar áttu í vandræðum með að setja skotin sín niður. Stólarnir söxuðu á forskotið og Hill minnkaði muninn í tvö stig, 65-63. KR virtist þó ætla að hirða stigin tvö, staðan 70-63 þegar fjórar mínútur voru eftir. En þessar síðustu fjórar mínútur gerði KR aðeins eina körfu og hún kom á síðustu sekúndu leiksins. Lewis og Pétur jöfnuðu leikinn og Lewis kom Stólunum svo yfir í fyrsta sinn í leiknum, 70-72, þegar hálf mínúta var eftir. Þá fékk KR boltann og í síðustu sókninni náðu þeir fjórum skotum! Þeir voru grimmir í sóknarfráköstunum og höfðu sömuleiðis heppnina með sér. En það var Craion sem var snarpari en Flake á fótunum og sá við Flake sem ætlaði að stíga hann út í blálokin. Hann komst inn fyrir Flake, hirti frákast eftir 3ja stiga skottilraun Ægis, og setti boltann með naumindum niður. Staðan jöfn 72-72.

Í framlengingunni voru heimamenn fyrri til að skora og Stólarnir náðu ekki að jafna leikinn. Lokatölur 80-76.

Það var gríðarlega svekkjandi fyrir Tindastólsmenn að tapa í lokin. Þeir voru búnir að ná upp sterkri vörn og KR fékk erfið skot. Flake hefur eflaust ekki verið kátasti koppurinn í rútunni á leiðinni heim í gær. Leikurinn í gær sýndi mönnum þó að liðið er að komast aftur á rétt ról. 

Í lýsingunni í gær var mikið gert úr því að Stólarnir væru að tapa of mörgum boltum en þegar upp var staðið, og kannski sérstaklega eftir dapran fjórða leikhluta, þá voru það KR-ingar sem töpuðu fleiri boltum, 21 gegn 19 töpuðum hjá gestunum. Í 3ja stiga skotum höfðu heimamenn naumlega vinninginn en Pétur og Helgi Már settu báðir niður þrjá þrista; Pétur í fjórum tilraunum en Helgi í tíu. Lið KR hirti fleiri fráköst og sérstaklega var dýrkeypt að láta þá hirða 21 sóknarfrákast og þar af Ægi litla fimm stykki. Pétur átti einn sinn besta leik fyrir Tindastól í gærkvöld og þá endaði Lewis með 21 stig rétt eins og Pétur. Viðar, sem átti fína innkomu, og Jerome Hill hirtu flest fráköst Tindastólsmanna, sjö hvor, en Craion var með 14 fyrir heimamenn.

Næsti leikur Tindastóls er gegn liði Grindavíkur þann 10. desember og það er gríðarlega mikilvægt að næla í sigur suður með sjó. Stólarnir eru líkt og Grindavík í 7.-10. sæti deildarinnar með átta stig.

Stig Tindastóls: Pétur 21, Lewis 21, Hill 13, Flake 7, Helgi Margeirs 5, Viðar 5, Helgi Viggós 2 og Svavar 2.