Fjölnismenn engin fyrirstaða

Lið Tindastóls vann afar þægilegan sigur á Fjölni úr Grafarvogi í Síkinu í kvöld. Stólarnir náðu góðu forskoti strax í byrjun og sáu gestirnir ekki til sólar í fyrri hálfleik og áttu í raun aldrei möguleika í síðari hálfleik þó heimamenn tækju fótinn aðeins af bensíninu. Lokatölur voru 103-83.

Byrjunarlið Tindastóls í kvöld var skipað þeim Lewis, Flake, Helga Viggós, Pétri og Ingva en Dempsey var hvíldur í kvöld en var þó til taks á bekknum ef á þurfti að halda. Það kom ekki til. Nafnarnir Lewis og Flake voru í miklu stuði í byrjun leiks og Stólarnir rúlluðu í gegnum vörn gestanna eins og ekkert væri. Staðan var 29-16 í lok fyrsta leikhluta og það var varla hægt að segja að Fjölnispiltar hafi verið viðstaddir í öðrum leikhluta sem Stólarnir sigruðu 30-11 og staðan því 59-27 í hálfleik.

Eðli málsins samkvæmt fengu bekkjarbræður að láta ljós sín skína í síðari hálfleik. Leikmenn Fjölnis höfðu þó fyrir því að girða sig í brók í hálfleik og komu munu baráttuglaðari og beittari til leiks í síðari hálfleik. Þeir gerðu fyrstu átta stigin en Stólarnir voru snöggir að rétta skútuna af undir styrkri stjórn Darrel Lewis sem átti flottan leik í kvöld. Fjölnir minnkaði muninn í 19 stig skömmu fyrir lok þriðja leikhluta en Helgi Rafn og Finnbogi voru drjúgir í stigaskorinu þegar leið á leikinn og gestirnir voru aldrei nálægt því að ógna forystu Stólanna.

Lewis var sem fyrr segir í hörkuformi með 23 stig, 7 fráköst og 5 stoðsendingar og þá gekk gestunum illa að eiga við Flake sem var með 15 stig og 11 fráköst. Helgi Viggós var sömuleiðis öflugur með 17 stig, þar af einn þrist, og 11 fráköst líkt og Flake. Ingvi átti fína takta og skilaði 15 stigum. Helgi Margeirs virtist ekki ganga heill til skógar en kappinn átti þó ein skemmtilegustu tilþrif leiksins þegar hann brunaði upp völlinn (líkt og í hægri endursýningu) og setti óáreittur niður þreytulegan þrist úr eina skoti sínu í leiknum. Hjá gestunum var Jonathan Mitchell stigahæstur með 26 stig en komst lítt áleiðis í fyrri hálfleik þegar Stólarnir spiluðu góða vörn á hann.

Þegar fimm umferðir eru eftir af deildarkeppninni eru KR-ingar öruggir á toppnum með 32 stig. Lið Tindastóls hefur komið sér vel fyrir í öðru sætinu með 26 stig en næstu lið, Stjarnan og Njarðvík, eru með 20 stig og stendur Tindastóll betur í innbirgðisviðureignum þessara liða þannig að það má mikið gerast til að Stólarnir tryggi sér ekki annað sætið. Næsti leikur Tindastóls er í Keflavík á sunnudaginn.

Stig Tindastóls: Lewis 23, Helgi Viggós 17, Flake 15, Ingvi 15, Svabbi 11, Finnbogi 10, Pétur 9 og Helgi Margeirs 3.