Fimmti sigurinn í Dominos-deildinni kom gegn Fjölni

Tindastóll vann fimmta sigurinn í sex leikjum í Dominos-deildinni í gærkvöldi þegar liðið heimsótti Fjölni í Grafarvoginn. Tindastólsmenn náðu yfirhöndinni strax í fyrsta leikhluta og í síðari hálfleik voru heimamenn aldrei líklegir til að trufla Stólana að einhverju ráði. Lokatölur 80-98.

Lið Fjölnis hóf þó leikinn betur, komst í 6-0 með körfum frá Sims, en síðan tóku Stólarnir leikinn yfir, komust í 10-11 og kláruðu fyrsta leikhluta vel, leiddu 21-28 að honum loknum. Lewis, Dempsey og Helgi Rafn voru að spila mjög vel. Pétur bættist á þann lista í öðrum fjórðungi en þá spiluðu Stólarnir vörn sem heimamenn áttu fá svör við, unnu boltann hvað eftir annað og gerðu auðveldar körfur. Staðan í hálfleik 39-51

Leikur heimamanna skánaði lítið í síðari hálfleik og Stólarnir héldu uppteknum hætti. Staðan 53-75 þegar fjórði leikhluti hófst og í honum fór Svabbi mikinn en hann gat látið ljós sitt skína í fjarveru Darrel Flake sem verður að líkindum frá vegna meiðsla næstu vikurnar.

 

Allir leikmenn Tindastóls fengu að spreyta sig í gær. Atkvæðamestur var Myron Dempsey sem gerði 24 stig og hirti 17 fráköst. Darrel Lewis var nálægt tvöfaldri þrennu, var með 18 stig, 19 stoðsendingar og 9 fráköst. Þá voru Pétur og Helgi Rafn öflugir í leiknum. Þrátt fyrir öruggan sigur þá settu Stólarnir aðeins niður eina 3ja stiga körfu í 17 tilraunum og vítanýtingin var vel undir 60%. Varnarleikur Stólanna var hinsvegar öflugur, Pétur var til dæmis með 7 stolna bolta og Stólarnir náðu mun fleiri skotum á körfu en lið Fjölnis þrátt fyrir að liðin væru að frákasta álíka mikið.

Lið Tindastóls er nú í öðru sæti deildarinnar með 10 stig eftir 6 leiki en Íslandsmeistarar KR tróna á toppnum. Næsti leikur Tindastóls er hér heima næstkomandi fimmtudag en þá mæta Keflvíkingar í heimsókn.

Stig Tindastóls: Dempsey 24, Lewis 18, Pétur 17, Helgi Rafn 16, Svavar 11, Viðar 4, Ingvi 2, Sigurður 2, Friðrik 2 og Finnbogi 2.