Dempsey og Helgi Margeirs mergjaðir í meiriháttar sigri í Þorlákshöfn

Tindastólsmenn gerðu sér lítið fyrir og lögðu lið Þórs í Þorlákshöfn í kvöld í öðrum leik liðanna í rimmu þeirra í úrslitakeppni Dominos-deildarinnar í körfubolta. Stólarnir náðu ágætri forystu fyrir hlé en þrátt fyrir góðan endasprett heimamanna þá tókst gestunum að setja fyrir lekann og sigruðu 85-96.

Stólarnir hófu leikinn með leiftursókn og komust í 3-11. Heimamenn komu sér inn í leikinn og að loknum fyrsta leikhluta var staðan jöfn, 18-18. Helgi Margeirs setti síðan upp smá skotsýningu í öðrum leikhluta, setti m.a. niður þrjá þrista og Dempsey og Svabbi einn á mann. Stólarnir náðu ágætu forskoti þegar leið að hálfleik og flautukarfa frá Helga af rúmsjó gaf góð fyrirheit fyrir síðari hálfleik. Staðan 33-46.

Í byrjun þriðja leikhluta virtist sem Tindastólsliðið hefði gert út um leikinn en strákarnir náðu 11-2 kafla og voru 22 stigum yfir eftir tæpar tvær mínútur. Stólarnir héldu um 20 stiga forystu þar til tvær mínútur voru eftir af leikhlutanum og staðan 53-75. Þá gerði Grétar fimm stig og Govens og Tómas bættu við tveimur stigum hvor og staðan 62-75 fyrir loka fjórðunginn.

Lið Þórs spilar alla jafna hraðan bolta, eru með góða skotmenn og berjast eins og ljón. Þeir voru snöggir að minnka muninn í átta stig og ljóst að Tindastólsmenn þurftu að hafa fyrir hlutunum. Gestunum gekk hins vegar illa í sókninni og Govens minnkaði muninn í fimm stig með þremur vítaskotum, 74-79. Dempsey, sem átti góðan leik fyrir Tindastól, átti alley-oop körfu í næstu sókn en þegar þrjár og hálf mínúta var eftir setti Tómas Tómasson niður þrist og minnkaði muninn í þrjú stig, 83-86. Israel Martin þjálfari Stólanna tók leikhlé með það sama og náði að berja í brestina. Skot heimamanna hættu að rata og í örvæntingu brutu þeir ótt og títt á leikmönnum Tindastóls sem skiluðu sínum vítaskotum samviskusamlega í körfuna.

Mikilvægur sigur því staðreynd og nú gefst Tindastólsmönnum kostur á að klára einvígið nk. föstudagskvöld í Síkinu. Það er þó ljóst að Þórsarar mæta ekki norður til að gefa eitt eða neitt.

Myron Dempsey átti frábæran leik í kvöld en kappinn var með 28 stig, 11 fráköst og 4 stoðsendingar og skotnýtingin hans var flott, 7/10 innan teigs, 3/5 utan 3ja stiga línunnar og 5/6 í vítum. Helgi Margeirs var sjóðheitur og klikkaði ekki á skoti í leiknum. Hann endaði með 15 stig. Lewis var með 13 stig líkt og Pétur og Helgi skilaði 12 stigum í baukinn og hirti 8 fráköst. Hjá Þórsurum voru Govens, Grétar og Tómas atkvæðamestir.

Stig Tindastóls: Dempsey 28, Helgi Margeirs 15, Lewis 13, Pétur 13, Helgi Viggós 12, Ingvi 8, Svabbi 5 og Flake 2.