Baráttusigur á Þórsurum í fyrsta leik

Það var gott kvöld fyrir Skagfirðinga í kvöld því ekki var nóg með að lið Skagafjarðar skellti Akureyringum í Útsvari heldur fór lið Tindastóls vel af stað í úrslitakeppni Dominos-deildarinnar þegar það lagði spræka Þórsara úr Þorlákshöfn með 12 stiga mun eftir spennandi leik. Lokatölur 97-85.

Það var frábær stemning í Síkinu, enda stuðningsmannalið Tindastóls byrjað að kirja sína söngva löngu fyrir leik. Leikmenn voru heldur ekkert að spara sig. Ingvi Ingvarsson gaf tóninn fyrir Tindastól með tveimur 3ja stiga körfum í byrjun en Stólarnir leiddu í fyrsta leikhluta og voru yfir, 26-18, þegar annar leikhluti hófst. Hann var ansi sveiflukenndur því gestirnir náðu snemma 12-0 kafla, breyttu stöðunni úr 28-19 í 28-31, en heimamenn svöruðu að bragði og gerðu níu stig á skömmum tíma án þess að Þórsarar næðu að svara. Munurinn hefði orðið meiri ef vítahittni heimamanna hefði ekki verið vonlaus á þessum kafla og það fór svo að Darrin Govens, sem var frábær í liði Þórs, minnkaði muninn í eitt stig þegar hann setti niður flautuþrist um leið og leiktíminn rann út. Staðan í hálfleik 45-44.

Tindastólsliðið hefur oft í vetur átt góða kafla í þriðja leikhluta og náð afgerandi forystu. Sá kafli lét á sér standa því Þórsarar voru alltaf skammt undan með þá Tómas Inga og Govens í fínu formi og Grétar sterkan í teignum. Lítið gekk hjá Darrel Lewis í leiknum og endaði með því að Israel Martin, þjálfari Stólanna kippti honum af velli og Myron Dempsey skömmu síðar. Í kjölfarið fylgdi besti kafli Tindastóls í leiknum og heimamenn náðu að hægja á gestunum í sókninni með fínum varnarleik.

Fimm stigum munaði fyrir lokafjórðunginn, 67-62, og útlit fyrir æsispennandi lokamínútur. Pétur Birgisson, hinn 19 ára leikstjórnandi Stólanna, hafði aðrar hugmyndir. Honum hafði reyndar gengið afleitlega að finna körfuna fram að þessu en hann gerði átta fyrstu stigin í fjórðungnum, og Stólarnir skyndilega komnir með 13 stiga forystu, 75-62. Pétur átti eftir að bæta við sjö stigum áður en yfir lauk. Þennan mun gekk Þórsurum ekkert að vinna upp og bæði virtust leikmenn orðnir nokkuð lúnir og lið Tindastóls spilaði af yfirvegun síðustu mínúturnar.

Myron Dempsey var góður í liði Tindastóls, gerði 26 stig og tók 16 fráköst, þar af 10 sóknarfráköst en Stólarnir hirtu 21 sóknarfrákast á móti 7 stykkjum gestanna og munar um minna. Fyrirliðinn Helgi Rafn Víggósson tók 13 fráköst og var gríðarsterkur í leiknum. Pétur var nokkuð æstur í byrjun og fékk nokkrar óþarfa villur en hann var alveg magnaður í síðari hálfleik. Sömuleiðis átti Ingvi frábæran leik í vörn og sókn en gæjarnir voru með tæp tuttugu stig hvor og stigu heldur betur upp þegar Lewis hitti á slæman dag. Viðar Ágústs kom inn í liðið og spilaði góða vörn á Govens sem var hrikalega snöggur í liði Þórsara. Kappinn er að auki skjótari en skugginn að skjóta og gerði hann 29 stig í leiknum. Nokkuð dró af honum á lokakaflanum enda búinn að berjast við unga og viljuga varnarmenn Tindastóls lengst af leiksins. Þá var Tómas Heiðar góður og hitti vel utan 3ja stiga línunnar en Helga Rafni og félögum tókst að gera Grétari, sem er gríðarsterkur, erfitt fyrir. Lið Tindastóls hirt yfir 20 fráköstum meira en Þórsarar en það var helst á vítalínunni sem Stólarnir voru að klikka.

Tindastóll hefur tekið forystuna í einvígi liðanna en þau mætast í annað sinn í Þorlákshöfn nk. mánudagskvöld.

Stig Tindastóls: Myron Dempsey 26, Pétur Birgisson 19, Ingvi Rafn Ingvarsson 18, Helgi Rafn Viggósson 10, Darrel Flake 8, Darrel Lewis 7, Viðar Ágústsson 5, Svavar Birgisson 2 og Helgi Freyr Margeirsson 2.
Stig Þórs: Darrin Govens 29, Tómas Ingi Tómasson 19, Nemenja Sovic 12, Grétar Ingi Erlendsson 9, Halldór Garðar Hermannsson 8, Oddur Ólafsson 3, Baldur Þór Ragnarsson 3 og Emil Karel Einarsson 2.

Stigaskor leiks:
12-6, 21-15, 26-16.
28-19, 28-31, 37-33, 45-44.
53-50, 62-60, 67-62.
75-62, 79-70, 86-74, 97-85.