Baráttusigur í kvöld og Stólarnir bruna í úrslitin

Tindastólsmenn stigu upp í kvöld eftir vonda leikinn á mánudag og hentu Haukum úr leik í miklum baráttuleik í Hafnarfirði. Lið Tindastóls náði fljótlega forystunni í leiknum og komust heimamenn aldrei yfir eftir það þó aldrei væri langt í þá. Þeir náðu að jafna leikinn þegar um fimm mínútur voru eftir en þristur frá Pétri virtist gera gæfumuninn og Stólarnir sigldu sigrinum í höfn. Lokatölur 62-69 fyrir Tindastól.

Það var mikil og góð stemning í Schenken-höllinni í kvöld og að sjálfsögðu fjölmenntu stuðningsmenn Stólanna eins og ævinlega. Darrel Lewis tók strax frumkvæðið fyrir Tindastól og átti mjög góðan leik í kvöld, setti 20 stig og tók 11 fráköst. Spennustigið var hátt í kvöld og liðunum gekk báðum illa að klára sóknir sínar en heimamönnum þó sínu verr. Að loknum fyrsta leikhluta var staðan 12-16 fyrir Tindastól og munurinn framan af öðrum leikhluta var þetta 3-6 stig. Helgi Margeirs setti fyrri 3ja stiga körfu sína í leiknum og breytti stöðunni í 23-29 og síðan fylgdu fimm stig frá Dempsey en hann var að nýju kominn í frákastaham í kvöld, tók 14 stykki og setti 17 stig. Haukarnir gáfust þó ekkert upp og minnkuðu muninn í fimm stig fyrir hlé. Staðan 32-37 fyrir Stólana.

Baráttan hélt áfram í þriðja leikhluta en munurinn yfirleitt 5-10 stig. Enn og aftur komu Haukar sterkir inn á lokakaflanum og Haukur Óskarsson minnkaði muninn í 49-51 þegar innan við mínúta var eftir af leikhlutanum. Það var því allt í járnum þegar fjórði leikhluti hófst. Lewis setti niður tvö vítaskot og síðan gerði Flake tvö stig en hann gerði nokkrar mikilvægar körfur í kvöld. Alex Francis, sem átti ágætan leik fyrir Hauka, jafnaði síðan metin, 55-55, með troðslu sem hefði átt að virka sem vitaminsprauta á Haukaliðið en Pétur svaraði með þristi. Francis minnkaði muninn en þá setti Flake niður þrist og Stólarnir höfðu aftur náð frumkvæðinu. Lewis bætti við fjórum stigum og staðan orðin 57-65 þegar rúmar þrjár mínútur voru eftir og sóknir Haukanna fóru að gerast örvæntingafullar, enda ljóst að með sigri voru Stólarnir að tryggja sér sæti í úrslitarimmunni.

Sem og varð raunin. Ekki er ljóst hverjum Stólarnir mæta þar því Njarðvíkingar unnu öruggan sigur á KR í kvöld og mætast liðin í Vesturbænum næstkomandi föstudagskvöld.

Hittni liðanna í kvöld var ekkert til að hrópa húrra fyrir, enda mikið undir. Tindastólsmenn náðu að kveikja á varnarleiknum á ný og fráköstuðu talsvert meira en heimamenn. Þá voru heimamenn með fleiri tapaða bolta. Þetta skilaði sér í fleiri skottilraunum Tindastóls.

Árangur Tindastóls í vetur hefur verið frábær og Skagfirðingar heldur betur stoltir af sínum mönnum. Nú er bara að njóta þess að vera komnir í úrslitarimmuna og halda gleðinni áfram.

Í samtali við Vísi.is segir Helgi Viggós, fyrirliði Tindastóls: „Við erum gríðarlega ánægðir með þetta og nú er það bara næsta skref. Það er síðasta skrefið sem skiptir öllu máli og við mætum klárir í það verkefni.“

Stig Tindastóls: Lewis 20, Dempsey 17, Flake 9, Pétur 9, Helgi Margeirs 6, Helgi Viggós 4, Svavar 3 og Viðar 1.