Íslandsmeistaramót JSÍ fyrir yngri flokka

Þann 29. apríl síðastliðinn fór fram Íslandsmeistaramót fyrir aldursflokkana 11 til 20 ára, sem haldið var hjá Ármanni í Reykjavík.

Alls mættu 56 keppendur, 46 strákar og 10 stelpur, frá sjö félögum til leiks – þar af þrjár stelpur frá Júdódeild Tindastóls.

Caitlynn Morrie Sandoval Mertola og Harpa Sóllilja Guðbergsdóttir voru að keppa á sínu fyrsta Íslandsmeistaramóti og fóru báðar heim með bronsverðlaun. Jóhanna María Grétarsdóttir Noack, íslandsmeistari frá því í fyrra, hreppti silfrið að þessu sinni.

Cailynn keppti í U15 -48 kg flokki og vann tvær glímur og tapaði tveimur. Þetta var frábær frammistaða hjá henni og sýndi hún flotta takta.

Harpa lenti í flokki U15 -70 kg sem þýddi að hún þurfti að keppa upp fyrir sig í aldri. Hún gerði sitt besta en varð að láta í minni pokann fyrir reyndari og eldri keppendum og tapaði hún báðum sínum viðureignum.

Jóhanna María keppti einnig upp fyrir sig í aldri og þyngd í flokki U15 -48 kg. Henni gekk vel þrátt fyrir það og vann hún þrjár af fjórum glímum sínum.

Eins og oft áður vantaði ekki stuðningsmennina og Jo Althea Marien Sandoval Mertola hjálpaði meira að segja til í upphitun þó hún hafi ekki sjálf keppt á mótinu að þessu sinni. Auðvitað fylgdi svo Ása lukkudýrið okkar á mótið og stóð hún sína plikt með sóma.