Vormót Tindastóls í Júdó 2019

Keppendur á Vormóti Tindastóls í Júdó 2019 ásamt þeim Huldu Guðmundsdóttur (vinstra megin) og Sessel…
Keppendur á Vormóti Tindastóls í Júdó 2019 ásamt þeim Huldu Guðmundsdóttur (vinstra megin) og Sesselju Margréti Albertsdóttur (hægra megin), fyrstu konunum sem hófu að æfa júdó á Íslandi. Mynd: Katharina Sommermeier.

Vormót Tindastóls í Júdó var haldið í íþróttahúsinu á Sauðárkróki í dag. Fimmtíu keppendur mættu til leiks frá fimm júdófélögum: KA á Akureyri, Pardus á Blönduósi, Júdódeild Ármanns og Júdófélagi Reykjavíkur í Reykjavík auk Júdódeildar Tindastóls í Skagafirði.

Það er orðinn fastur liður í starfi Júdódeildar Tindastóls að halda opið júdómót í lok vorannar en þetta er fimmta árið í röð sem Vormót Tindastóls í Júdó er haldið. Vormótið markar lok annarinnar og þar fá júdóiðkendur tækifæri á því að spreyta sig í keppni við iðkendur frá öðrum júdófélögum.

Að þessu sinni mættu fimmtíu keppendur til leiks, 21 stelpa og 29 strákar, sem kepptu í fimmtán þyngdar- og aldursflokkum.

Mótið hófst á sameiginlegri æfingu allra keppenda þar sem vel var hitað upp og farið í nokkra leiki. Mótið sjálft hófst svo um klukkutíma síðar, eða upp úr 11. Margar skemmtilegar glímur mátti sjá og var mjög gaman að fylgjast með keppendum og sjá hvernig þeir hafa bætt sig frá fyrri árum, en margir keppendanna hafa aldrei látið sig vanta á þetta mót.

Eftir mót fór fram verðlaunaafhending og að þessu sinni afhentu þær stöllur Sesselja Margrét Albertsdóttir og Hulda Guðmundsdóttir verðlaunin, en þær eru fyrstu konurnar sem hófu að æfa júdó á Íslandi. Það var því mikill heiður að fá þær á mótið og njóta þeirra nærveru.

Að lokinni verðlaunaafhendingu bauð Júdódeildin öllum keppendum og áhorfendum upp á grillað lambakjöt og meðlæti til að tryggja að allir færu saddir og sáttir heim á leið.

Hér fyrir neðan má sjá nánari úrslit mótsins og myndir sem teknar voru af Katharinu Sommermeier.

Stjórn júdódeildarinnar vill að lokum þakka öllum gestum fyrir komuna og öllum sjálfboðaliðunum sem stóðu vaktina.

Úrsli Vormóts Tindastóls í Júdó 2019