Æfingabúðir hjá Pardusi á Blönduósi

Frá æfingu á laugardaginn.
Mynd Róbert Daníel Jónsson.
Frá æfingu á laugardaginn.
Mynd Róbert Daníel Jónsson.

Um helgina stóð Júdófélagið Pardus fyrir æfingabúðum í júdó í íþróttamiðstöðinni á Blönduósi, sem samanstóð af tveimur æfingum sitthvorn daginn. Þátttakendur voru á fimmta tug frá þremur júdófélögum - Júdódeild UMF Selfoss, Júdódeild Tindastóls auk Júdófélagsins Pardusar.

Fjörið byrjaði á laugardaginn klukkan 13 með æfingu sem stóð til 15. Á æfingunni fór selfyssingurinn Garðar Hrafn Skaptason yfir nokkur mikilvæg atriði fyrir júdóiðkendur auk þess sem tekist var á í glímum og farið í leiki. Eftir æfingu stóð þátttakendum til boða að fara í sund þar sem hægt var að notfæra sér heitu pottana, eimbaðið og laugina. Klukkan 18 var svo öllum boðið í súpu og kjúklingapasta á B&S áður en farið var í félagsmiðstöðina Skjólið þar sem menn styttu sér stundir í ýmsum leikjum og spilum.

Æfingabúðirnar enduðu svo með sunnudagsæfingu frá klukkan 10 til 12 í dag.

Æfingabúðirnar voru opnar iðkendum átta ára og eldri og nýttu níu iðkendur Tindastóls sér tækifærið.

Mjög vel var að verki staðið hjá Pardusi og eiga þeir hinar bestu þakkir skildar fyrir góðar móttökur og skemmtilega júdóhelgi.