Vormót Tindastóls í Júdó fór fram á Sauðárkróki í dag

Frá Vormóti Tindastóls. Mynd: Magnús Elí Jónsson.
Frá Vormóti Tindastóls. Mynd: Magnús Elí Jónsson.

Keppendur frá KA á Akureyri, Júdófélagi Reykjavíkur og Júdódeild Ármanns í Reykjavík og Júdódeild Tindastóls á Sauðárkróki, Hólum, Hofsósi og Varmahlíð öttu kappi í júdó á Vormóti Tindastóls sem haldið var í íþróttahúsinu á Sauðárkróki í dag.

Alls voru 42 keppendur skráðir til leiks, 22 stelpur og  20 strákar, og þar af voru 25 að keppa fyrir Júdódeild Tindastóls. Þetta er í fjórða sinn á jafn mörgum árum sem Vormótið er haldið hér á Sauðárkróki og markar það lok vorannar hjá Júdódeild Tindastóls.

Þetta mót er opið öllum 14 ára og yngri og hefst það að venju á klukkutíma æfingu allra keppenda þar sem vel er hitað upp og teknar léttar glímur inn á milli júdóleikja. Eftir æfingu er keppendum skipt í flokka áður en mótið sjálft er sett af stað. Eftir mót er öllum keppendum og fylgdarliði boðið upp á grillað KS lambakjöt og meðlæti og þannig tryggt að allir fari vel saddir heim á leið.

Margar skemmtilegar viðureignir mátti sjá á júdógólfinu í dag og allir keppendur stóðu sig vel, sýndu áræðni og baráttuhug þó að andstæðingurinn væri oft keppnisreyndari.

Júdódeildin vill koma á framfæri þökkum til allra sem gáfu sér tíma til að fylgjast með mótinu og allra þeirra sjálfboðaliða sem lögðu hönd á plóg.

Úrslit mótsins og nokkrar myndir má sjá hér fyrir neðan.

 Úrslit Vormóts Tindastóls í Júdó 2018