M.fl.karla

Það viðraði vel til knattspyrnuiðkunar á JÁVERK-vellinum á Selfossi í dag þegar Selfoss tók á móti Tindastól í 1. deild karla. 

Selfoss sótti hart og vel allt frá 1. mínútu og voru nokkru sinnum nærri því að komast yfir. Tindastóll átti mjög fáar sóknir á móti og voru ekki líklegir framan af. 

Heimamenn voru mikið að vinna með háa bolta inn í teig og áttu nokkra fína skalla en tókst ekki að koma boltanum í mark fyrr en að Guðmundur Ársæll, dómari leiksins, dæmdi vítaspyrnu á Tindastól þar sem varnarmaður Tindastóls braut klaufalega á í sínum eigin teig. Luka Jagacic fór á punktinn og lagði boltann örugglega í markið. 

Tindastóll tók aðeins við sér eftir markið og áttu nokkrar fínar sóknir og var Ívar Guðlaugur Ívarsson áberandi góður að mati undirritaðar, fyrir Tindastóls. Allt kom þó fyrir ekki og var staðan 1-0 í hálfleik. 

Tindastóll komu mjög sterkir inn í seinni hálfleik og voru líklegri til að skora en heimamenn fyrstu 5-10 mínúturnar. Það var hins vegar á 58. mínútu sem Loftur Páll Eiríksson fékk sitt annað gula spjald og þar af leiðandi rautt fyrir brot rétt fyrir utan teig. Selfoss skellti þá í mjög vel útfærða aukaspyrnu sem Þorsteinn Daníel Þorsteinsson skoraði úr. 

Gestirnir urðu frekar bitlausir eftir að lenda manni færri og nýttu heimamenn sér það með mörgum fínum sóknum. Bæði lið sóttu framan af en það var ekki fyrr en á 81. mínútu sem þriðja markið kom. Þar var Þorsteinn aftur á ferð þar sem hann skoraði laglegt mark beint úr aukaspyrnu. 

Fátt markvert gerðist það sem eftir lifði leiks og endaði leikurinn því 3-0 og Selfoss þar af leiðandi komið með 7 stig á tímabilinu á meðan Tindastóll er á botni deildarinnar með 2 stig.

Frétt frá Fótbolta.net.