Snilldar endurkoma Stólanna gegn Stjörnunni

Fyrsta umferð í Dominos-deildinni í körfubolta hófst í kvöld. Tindastólsmenn renndu suður í Garðabæ þar sem þeir léku við Stjörnuna. Framan af leik voru strákarnir ekki í gírnum en síðustu 15 mínútur leiksins snéru þeir á heimamenn svo um munaði og unnu á endanum frækinn sigur, 80-85.

Dagur Jónsson setti niður fyrstu 3ja stiga körfu leiksins og kom Stjörnumönnum í forystu sem þeir héldu þangað til þrjár og hálf mínúta var eftir af leiknum. Heimamenn höfðu frumkvæðið í fyrsta leikhluta og voru yfir, 27-20, að honum loknum. Tindastólsmenn létu það síðan alveg vera að skora fyrstu fimm mínútur annars leikhluta og og staðan orðin 39-20 áður en Ingvi Rafn setti niður þrist fyrir Stólana. Í hálfleik var staðan 46-30.

Stjarnan byrjaði þriðja leikhluta af krafti og náði fljótlega 20 stiga forskoti. Justin Shouse setti síðan niður þrist og staðan orðin 59-36. Þá fannst Tindastólsmönnum komið nóg og þeir hófu endurkomu sína með fantagóðum varnarleik sem varð til þess að á rúmum þremur mínútum gerðu Stólarnir 16 stig án þess að heimamenn næðu að svara, staðan 59-52 og allt orðið opið. Þegar þriðja leikhluta lauk var munurinn aðeins fjögur stig, 62-58.

Góður leikur Tindastólsmanna hélt áfram í fjórða leikhluta en Stjörnumenn voru ekki tilbúnir að gefa eitt eða neitt. Með góðum varnarleik náðu Stólarnir að setja heimamenn í þá stöðu að taka erfið skot. Helgi Margeirs minnkaði muninn snemma í eitt stig, 64-63, en það tók Stólana þó dágóðan tíma að ná forystunni í leiknum. Það gerði einmitt Helgi Margeirs með þriðju 3ja stiga körfu sinni í leikhlutanum. Æsispenna var síðustu mínúturnar en Stólarnir með Helgana tvo í baráttuhug héldu haus, á meðan kanónur heimamenn fóru á taugum á vítalínunni, og fögnuðu í lokin sætum sigri.

Frábær byrjun á Íslandsmótinu hjá Tindastóli. Síðustu vertíðir í efstu deild hefur jafnan verið löng bið eftir fyrsta sigurleik tímabilsins en núna kom sigur strax í fyrsta leik sem gefur góðar vonir fyrir áframhaldið en spekingar hafa spáð liðinu góðu gengi í vetur.

Dempsey var öflugur í kvöld þó svo nýtingin hafi ekki verið stórkostleg. Hann skilaði 22 stigum og 10 fráköstum og átti frábæran síðari hálfleik eins og liðið allt. Helgi Rafn var sterkur með 18 stig og 7 fráköst og þá setti Helgi Margeirs 15 stig, þar af fjögur 3ja stiga skot í átta tilraunum.

Stig Tindastóls: Dempsey 22, Helgi Viggós 18, Helgi Margeirs 15, Lewis 14, Ingvi 13 og Pétur 3.