Því miður sýndu meistararnir meistaratakta í Síkinu

Pavel var frábær í liði KR í kvöld og hér sækir hann að körfu Tindastóls. MYND: HJALTI ÁRNA
Pavel var frábær í liði KR í kvöld og hér sækir hann að körfu Tindastóls. MYND: HJALTI ÁRNA

KR kom, sá og sigraði örugglega í Síkinu í kvöld þegar þeir mættu einbeittir til leiks og sýndu lemstruðum Tindastólsmönnum hvar Davíð keypti ölið. Þeir nýttu sér hvern einasta dropa af reynslutanknum og eftir hressilegar upphafsmínútur skelltu þeir í lás í vörninni og Stólarnir fundu ekki neistann né taktinn í troðfullu Síki þar sem forseti Íslands, hr. Guðni Jóhannesson, var á meðal áhorfenda. Lokatölur voru 54-75 fyrir KR og ljóst að meistararnir eru spólg***ir.

Tindastóll byrjaði leikinn vel og leit út fyrir hörkuleik. Sigtryggur Arnar gerði fyrstu fimm stig Tindastóls og síðan tók Pétur upp hanskann. Stólarnir voru með frumkvæðið og voru lengstum 2–5 stigum yfir. Staðan að loknum fyrsta leikhluta var 17-14 fyrir heimamenn og stemningin í Síkinu geggjuð.

Það var lítið skorað fyrstu mínútur annars leikhluta en körfur frá Hannesi og Axel héldu Stólunum í forystu. Það varð hins vegar fljótlega ljóst að besti maður Tindastóls, Antonio Hester, gekk ekki heill til skógar. Hann meiddist á ökkla á síðustu mínútum leiksins gegn ÍR á dögunum og hann hafði greinilega ekki náð að jafna sig. Hann endaði á að spila rétt rúmlega helming leiktímans en gat illa beitt sér og þá sérstaklega í sókninni. KR-ingar hertu nú á varnarleiknum og þegar annar nýrra leikmanna KR, sem þeir nældu sér í nú í miðri úrslitakeppni, Marcus Walker, jafnaði leikinn 21-21 um miðjan leikhlutann, þá snérist leikurinn gjörsamlega. Á þessum kafla reyndist Björn Kristjáns Stólunum erfiður og gerði átta stig. KR komst í 25-35 en þristar frá Axel og flautuþristur frá Arnari héldu Stólunum inni í leiknum. Staðan 31-38 í hálfleik.

Í síðari hálfleik héldu gestirnir uppteknum hætti. Vörn þeirra var illviðráðanleg og Stólunum gekk afleitlega að nýta þau færi sem gáfust. Vörn Tindastóls hélt framan af en í kjölfar þess að Davenport minnkaði muninn í sjö stig, 39-46, þegar tæpar þrjár mínútur voru eftir, þá svaraði Jón Arnór með fimm stigum. Davenport átti síðasta orðið í leikhlutanum þegar hann blakaði niður misheppnuðu 3ja stiga skoti Péturs og staðan 43-53.

KR-ingar kláruðu leikinn í byrjun fjórða leikhluta

Tveir þristar frá Brynjari Þór og Jóni Arnóri kláruðu í raun leikinn í upphafi fjórða leikhluta. Leikur KR var nú frábær, vörnin mögnuð og í sókninni hlupu þeir kerfin vel, boltinn gekk hratt milli manna þangaði til einhver galopinn fékk skotfæri og oftar en ekki skiluðu Vesturbæingar boltanum í körfuna. Flest áhlaup Tindastóls voru stöðvuð í fæðingu með því að brjóta áður en Stólarnir voru komnir í skotfæri og þannig náðu Tindastólsmenn aldrei upp almennilegri stemningu í leik sinn í síðari hálfleik. Jafn oft hreinlega náðu Stólarnir ekki að klára sóknir sínar áður en tíminn rann út. Það var erfitt að horfa á þetta en KR-ingar spiluðu eins og sannir meistarar og ekki annað að gera en að taka ofan fyrir þeim í kvöld. 

Það var sannarlega klókur leikur hjá KR-ingum að kalla til þá Helga Magg og Marcus Walker til að styrkja lið sitt í úrslitakeppninni. Gamlar og lúnar lappir fá nú ágæta hvíld á meðan gamlar en hvíldar lappir hlaupa í skarðið. Spurning hversu sanngjarnt þetta er en svona eru gömlu góðu reglurnar. Pavel Ermolinskij steig varla feilspor í kvöld en hann hefur oftar en ekki átt frekar dapra leiki í Síkinu – en ekki í kvöld. Hann var með níu stig, 11 varnarfráköst og níu stoðsendingar. Brynjar Þór og Jón Arnór voru stigahæstir í jöfnu liði KR-inga með 13 stig hvor.

Stólarnir vilja örugglega gleyma þessum leik sem fyrst og það er því bæði gott og vont að það er stutt í næsta leik sem er nú strax á sunnudagskvöldið. Gott því menn hafa lítinn tíma til að velta sér upp úr vonbrigðum kvöldsins en vont vegna þess að Hester þarf sannarlega lengri tíma til að jafna sig af meiðslunum. Hversu svekkjandi er það að mæta KR öðru sinni á fjórum árum í úrslitum og enn á ný með meiddan Kana? Stólarnir búa ekki við þann lúxus að geta kallað inn menn í landsliðsklassa til að hlaupa í skarðið fyrir hann og verða því að berja sig saman undir erfiðum kringumstæðum. Framan af leik í kvöld voru það bara Pétur (14 stig) og Arnar (15) sem drógu vagninn í sókn Tindastóls en þeir fengu engan frið í síðari hálfleik. Þá var það helst Davenport sem einhverju skilaði en hann gerði 9 stig og tók níu fráköst. Axel átti ágætan leik en allt of fáir leikmenn Tindastóls náðu að skila framlagi í sókninni. 

En það er engin ástæða til að gefast upp þótt á móti blási eins og stuðningsmenn Tindastóls sýndu sannarlega í kvöld með því að hvetja sína menn áfram allt til loka. Vel gert. Áfram Tindastóll!

Tölfræði af vef KKÍ >