Vængbrotnir Vængir Júpíters vængstífðir í Síkinu

Það var fátt um fína drætti í Síkinu í kvöld þegar Vængir Júpíters mættu í heimsókn til Stólanna. Sigur heimamanna var bókaður frá fystu mínútu en Stólarnir voru engu að síður þó nokkra stund að taka til við tvistið því leikmenn virkuðu löngum stundum ansi áhugalausir. Á endanum vannst þó stórsigur, 121-71.

Það var auðvitað ekki efnilegt fyrir gestina að mæta til leiks með fimm leikmenn en þeir fimm sem mættu eiga heiður skilinn, spiluðu kannski ekki glæsilegan körfubolta en það var mesta furða hvað þeir náðu að komast framhjá pressuvörn heimamanna. Tindastólsmenn voru værukærir í fyrsta leikhluta og liðin skiptust á um að hafa forystuna og aðeins munaði tveimur stigum að fyrsta leikhluta loknum, 25-23. Framan af öðrum leikhluta hertu Stólarnir á vörninni og keyrðu betur upp hraðann og Vængirnir orðnir lafmóðir þegar á leið hálfleikinn – enda engin leið að hvíla leikmenn nema með því að taka reglulega leikhlé. Þannig að Tindastólsmenn sigldu framúr og lítið meira um leikinn að segja annað en að hann var prúðmannlega leikinn enda reyndu gestirnir að komast hjá villuvandræðum.

Helgi Rafn og Antoine Proctor voru atkvæðamestir í liði Tindastóls, Helgi með 31 stig og Proctor 28. Allir leikmenn Tindastóls fengu tækifæri í kvöld en þeir verða vonandi sprækari næstkomandi föstudag þegar þeir mæta Þór á Akureyri. Þá gætu Stólarnir reyndar þegar verið orðnir deildarmeistarar og þar með búnir að tryggja sér sæti í úrvalsdeild en liðið er nú efst með 30 stig eftir 16 leiki en Þórsarar, sem eru í öðru sæti með 24 stig, eiga leik inni gegn Hetti á Egilsstöðum nk. mánudag. Ef Höttur vinnur þann leik eru Stólarnir komnir upp.