Tap í undanúrslitum Powerade-bikarsins gegn KR í Vesturbænum

Fáir voru á ferli á götum Sauðárkróks sl. mánudag og mátti sennilega rekja það til þess að þá fór fram leikur Tindastóls og KR í DHL höllinni í Reykjavík, en hann var sendur út beint á RÚV Sport. Leikurinn var hörkuspennandi frá upphafi til enda og endaði með því að KR tryggði sér sæti í úrslitaleik Powerade-bikarsins með átta stiga sigri, 88-80.

Hart var barist og úrslitabragur á leik liðanna, varnirnar voru sterkar, liðin spiluðu fast og leikmenn fengu ekkert gefins. Þrátt fyrir að Stólarnir hafi gefið allt sem þeir áttu í leikinn og spilað vel á köflum voru KR-ingar með yfirhöndina allan tímann og Stólarnir voru alltaf að elta Íslandsmeistarana, en Tindastóll náði aldrei forystunni í leiknum.

KR leiddi með fjórum stigum, 21-17, að loknum 1. leikhluta og voru yfir í hálfleik, 44-35. Stólarnir klóruðu í bakkann þegar líða tók á leikinn þrátt fyrir takmarkaða þátttöku hjá Myron Dempsey sem ekki gekk heill til skógar eftir að hafa meiðst í leiknum gegn Njarðvík nokkrum dögum áður.

Í fjórða leikhluta fóru villuvandræði að há Tindastóli og menn að detta á bekkinn með 5 villur. Alls voru dæmdar 29 villur á gestina og fengu KR-ingar 37 vítaskot í leiknum sem þeir nýttu til að skora rúmlega 35% stiga sinna í heildina. KR nýtti sér villuvandræði Tindastóls einnig á annan hátt en þeir hirtu sjö sóknarfráköst í fjórða leikhluta og skoruðu í kjölfarið 9 stig og var það ansi dýrkeypt.

Stólarnir héldu allan leikinn í við KR-inga en sem fyrr segir höfðu Vesturbæingar sigur og mæta Stjörnunni í Höllinni í úrslitaleik Powerade-bikarsins. Stigahæstur í liði Stólanna var Lewis með 18 stig, Ingvi Rafn 13, Helgi Margeirs 12, Helgi Viggós og Pétur Birgis með 9 hvor. Dempsey hirti 8 fráköst og Helgi Viggós 7 en hann átti einnig 6 stoðsendingar.