Snilldarleikur Tindastóls gegn Snæfellingum

Það var nú meiri snilldin sem Tindastólsmenn buðu upp á í Síkinu í kvöld þegar Snæfellingar komu í heimsókn. Allir fengu að spreyta sig og gaman að sjá alla leikmenn koma spólandi hungraða til leiks, fulla af sjálfstrausti og leikgleði. Enda áttu gestirnir í raun aldrei möguleika í leiknum sem vannst þegar upp var staðið 104-77.

Tindastóll náði forystunni strax í byrjun leiks og lentu aldrei undir. Snæfellingar héldu í við heimamenn til að byrja með, staðan 15-13 eftir fimm mínútna leik, en síðan dró í sundur með liðunum. Dempsey fór mikinn í liði Tindastóls en aldrei þessu vant gekk Lewis illa að hitta körfuna þó hann gerði flest annað vel að vanda. Staðan var 23-19 að loknum fyrsta leikhluta en í öðrum leikhluta fengu Lewis og Dempsey að hvíla en það kom ekki að sök, ungu drengirnir sýndu frábæra baráttu og keyrðu upp hraðann með góðri aðstoð frá Helga Viggós og Svabba sem voru osom. Gestirnir vissu vart í hvorn fótinn þeir áttu að stíga en þegar upp var staðið náðu þeir að gera 8 stig í fjórðungnum á meðan heimamenn gerðu 20 og staðan í hálfleik því 43-27.

Helgi Margeirs hóf síðari hálfleik eins og hann lauk þeim fyrri, með því að smyrja körfuna með flauelsboltum úr fjarska. Síðan átti Dempsey tvær troðslur og staðan orðið 50-31. Þá náðu Snæfellingar ágætum kafla og gerðu níu stig í röð en Helgi bætti einum þristi í sarpinn og endaði leikinn með fimm 3ja stiga skot niður úr sjö tilraunum – hvert öðru nettara. Stólarnir juku forystuna enn á ný og að loknum þriðja leikhluta var staðan 73-55.

Fjórði leikhlutinn var, líkt og sá þriðji, taumlaus skemmtun og Stólarnir í miklum ham með kampakáta stuðningsmenn á pöllunum. Um miðjan leikhlutan völtuðu Tindastólsmenn yfir gestina og áttu 11-0 kafla á einni og hálfri mínútu þar sem boltanum var stolið ótt og títt og körfur í öllum regnbogans litum litu dagsins ljós. Kaflanum lauk með troðslu frá Helga Viggós sem fagnaði síðan ógurlega á miðjum vellinum. Helgi var frábær í vörninni í leiknum og hélt, með góðri hjálpa félaga sinna, Christopher Woods algjörlega í skefjum en kappinn, sem hefur farið mikinn síðan hann gekk til liðs við Snæfell, gerði 4 stig í leiknum og endaði með 12% skotnýtingu.

Leikurinn var mikil og góð skemmtun og leikmenn Tindastóls hreint út sagt frábærir í kvöld. Lewis gerði aðeins 12 stig en hann tók 13 fráköst (þar af 7 sóknarfráköst) og 6 stoðsendingar. Myron Dempsey var frábær með 27 stig og 12 fráköst og voru margar körfurnar alveg gullfallegar troðslur. Pétur átti góðan leik og fór vel með skotin sín en sem fyrr segir þá voru allir að spila vel í kvöld og baráttan og vinnusemin til mikillar fyrirmyndar. Frábær leikur!

Stig Tindastóls: Dempsey 27, Helgi Freyr 15, Pétur 13, Lewis 12, Ingvi 11, Svabbi 8, Helgi Rafn 6, Sigurður 5, Finnbogi 3, Friðrik Hrafn 2 og Þráinn 2.