Sex sigrar í sex leikjum um helgina

Lið Tindastóls í 11. flokki, drengjaflokki, unglingaflokki, meistaraflokki karla og kvenna léku samtals sex leiki um helgina og sigruðu í þeim öllum. 

11. flokkur drengja lék við Hött heima á föstudagskvöldið og unnu öruggan sigur 91-58. Drengirnir fóru síðan í Stykkishólm í dag og sigruðu heimamenn í Snæfelli 78-60. Liðið er í 2.sæti í sínum riðli og hafa tryggt sér sæti í 8. liða úrslitum. 

Drengjaflokkur lék heima við KR í gær og unnu góðan baráttusigur 69-60. Strákarnir eru í 3. sæti í sinum riðli og eiga þrjá leiki eftir. Strákarnir eiga góða möguleika á að komast í átta liða úrslit en Grindvíkingar sem einnig eru með 10 stig eiga tvo leiki eftir og Stjarnan sem líka eru með 10 stig á einn leik eftir. 

Unglingaflokkur karla lék gegn Fjölni í dag og unnu sannfærandi sigur 109-74. Strax frá upphafi var ljóst í hvað stefndi þegar strákarnir komust í 19-2. Liðinu var róterað vel sem sést m.a. á því að allir tólf leikmenn Tindastóls skoruðu stig í fyrri hálfleik. Unglingaflokkurinn er í 4.sæti og eiga fjóra leiki eftir og eiga góða möguleika á að komast í átta liða úrslitin.

Eins og áður hefur komið fram lauk meistaraflokkur kvenna keppni á laugardaginn þegar þær sigruðu Þór á Akureyri með 68-56. Liðið er í öðru sæti en endar að öllum líkindum í þriðja sæti þar sem að Fjölnir sem er í þriðja sæti þarf aðeins einn sigur í þeim þremur leikjum sem liðið á eftir. Þetta unga lið er án nokkurs vafa spútniklið 1. deildar kvenna.

Síðast en ekki síst kláraði meistaraflokkur karla tímabilið með stæl þegar þeir unnu Hött örugglega 97-77. Karlaliðið er deildarmeistarar og leika meðal þeirra bestu næsta vetur.