Körfuboltaveisla í Síkinu í kvöld

Fyrsti heimaleikur Tindastóls í Dominos-deildinni í körfubolta í einhverja 18 mánuði fór fram í kvöld en þá kom lið Þórs frá Þorlákshöfn í heimsókn. Stólarnir voru snöggir í gang og áttu nánast óaðfinnanlegan leik í fyrri hálfleik og lögðu þá grunninn að góðum sigri. Lokatölur urðu 110-90.

Darrel Flake var ekki með í kvöld en aðstoðar slökkviliðsstjórinn, Svavar Bigga Hreinsa, var mættur á parketið eftir að hafa tosað körfuboltaskóna úr geymslunni. Pétur Bigga Rafns hóf leikinn með látum og átti stórleik í kvöld og næsti maður á blað, Myron Dempsey, var sömuleiðis í þrusustuði. Stólarnir komust í 14-2 og 27-11 og voru 33-17 yfir eftir fyrsta leikhluta. Rosalegur kraftur og hraði var í leik liðsins og þá sýndu strákarnir góðan varnarleik. Skotin fóru flest niður og gestirnir vissu ekki hvaðan blés í logninu á Króknum.

Hlutirnir geta hins vegar breyst eldsnöggt í körfunni og stuðningsmenn Stólanna voru ekki sáttir við byrjunina á öðrum leikhluta því gestirnir gerðu fyrstu 10 stigin og það bara á 70 sekúndum. En þá kom skagfirsk sveifla og Stólarnir gerðu 14 stig í röð og staðan 47-27. Helgi Rafn jók muninn í 25 stig, 59-34, og í hálfleik var staðan 63-40.

Heldur hægðist á leiknum í síðari hálfleik en þó ekki mikið. Gestunum gekk illa að saxa á forskot Tindastólsmanna sem höfðu mikla yfirburði í fráköstum og nýttu sér það vel. Munurinn var 23 stig, 89-66, þegar síðasti leikhlutinn hófst. Þórsarar reyndu að hleypa leiknum upp og spiluðu vörnina framar á sama tíma og Tindastólsmenn reyndu að spila lengri sóknir og hægðist því nokkuð á spilinu. Þetta gekk ekki nógu vel hjá Stólunum og um miðjan hálfleikinn gerðu þeir sig seka um að missa boltann klaufalega hvað eftir annað og Tómas Tómasson gekk á lagið og setti niður nokkrar körfur. Þegar fimm mínútur voru eftir minnkaði Vincent Sanford muninn í ellefu stig, 96-85, og skyndilega var hlaupin spenna í leikinn. Helgi Margeirs slökkti að mestu vonarneista gestanna með flottum þristi, staðan 100-85, og síðan sigldu strákarnir sigrinum heim af öryggi.

Varla var veikan blett að finna á liði Tindastóls í kvöld og leikurinn hin besta skemmtun – nema sennilega fyrir fáeina stuðningsmenn Þórs í Síkinu, Benedikt þjálfara og lærisveina hans. Á köflum virtist allt ganga upp hjá Stólunum og eiginlega mesta furða hvað Þórsarar náðu að halda sér inni í leiknum, þó svo að sigur Tindastóls hafi í raun aldrei verið í hættu. Sem fyrr segir voru Dempsey og Pétur mjög góðir í kvöld og Lewis alveg ólseigur. Allir sem komu við sögu voru góðir og glæsilegar körfur og troðslur litu dagsins ljós.

Stig Tindastóls: Demspey 27 stig/11 fráköst, Pétur 21, Lewis 19, Helgi Viggós 17, Svabbi 8/11, Helgi Margeirs 6, Ingvi Rafn 6, Finnbogi 4 og Viðar 2.