Tindastólsmenn í tómu tjóni í Vesturbænum

Það leit allt út fyrir hörkuleik í DHL-höllinni í kvöld þegar lið KR og Tindastóls mættust í einum af stórleikjum tímabilsins í Dominos-deildinni. Það væri þó synd að segja að Stólarnir hafi mætt til leiks að þessu sinni því KR-ingar hreinlega rúlluðu yfir okkar menn. Eins og stundum áður í viðureignum þessara liða þá var það Brynjar Þór Björnsson sem þurfti endilega að hitta á stjörnuleik. Lokatölur voru 97-69 fyrir KR.

Heimamenn náðu strax yfirhöndinni í leiknum og voru komnir með tíu stiga forskot eftir rétt rúmar fjórar mínútur, 14-4, og þá hafði Brynjar þegar sett niður þrjá þrista. KR var yfir 21-10 að loknum fyrsta leikhluta og Brynjar sá til þess að tuttugu stigum munaði í hálfleik, 47-27. Snemma í þriðja leikhluta var Brynjar kominn með 31 stig og hafði þá skorað meira en allt Tindastólsliðið. Staðan 59-30 og ljóst að Tindastólsmenn voru fjarri góðu gamni. Hittnin var afleit en fyrstu 17 3ja stiga skot liðsins voru án árangurs. Sigtryggur Arnar fann þó loksins nothæfa fjöl og setti niður fjóra þrista í síðari hálfleik og Viðar bætti við tveimur.

Mestur varð munurinn á liðunum 32 stig í þriðja leikhluta en þegar Stólarnir fóru loksins að finna pláss og hitta eitthvað þá höfðu KR-ingar aðeins slakað á annars frábærum varnarleik sínum. Staðan var 73-49 að loknum þriðja leikhluta eftir eina þrist Péturs í leiknum. Arnar minnkaði muninn í 19 stig þegar sjö mínútur voru eftir en nær komust Stólarnir ekki að þessu sinni og voru í raun yfirspilaðir á báðum endum vallarins lengstum í kvöld.

Fæstir áttu gott kvöld í liði Stólanna en Arnar steig upp í síðari hálfleiknum og endaði með 22 stig. Björgvin átti góðan leik, gerði 9 stig og tók 11 fráköst og þá var Helgi Rafn ágætur með 10 stig og 9 fráköst. Garret var slakur og sömu sögu er að segja um Pétur. Í lið Tindastóls í kvöld vantaði Chris Caird.

Það eina sem gladdi Tindastólsmenn í leik KR var hálf vandræðalega vitahittni heimaliðsins, 16/30. Þeirra öflugastur var Brynjar Þór með 33 stig og þá var Björn Kristjáns einnig með stjörnuleik. Annars voru KR-ingar að spila leiðinlega vel og léku sér lengstum að lánlausum Tindastólsmönnum.

Ömurleg úrslit og ljóst að nú verða Stólarnir að vera snöggir að hrista af sér slenið því á fimmtudag koma Njarðvíkingar í heimsókn í Síkið. Mánudaginn 11. desember mæta ÍR-ingar í Síkið í átta liða úrsltium Maltbikarsins. Það eru því stórir leikir framundan. Áfram Tindastóll!