Stólarnir sóttu sigur í Breiðholtið

MYND: HJALTI ÁRNA
MYND: HJALTI ÁRNA

Fyrsti leikurinn í undanúrslitaeinvígi ÍR og Tindastóls fór fram í Breiðholtinu í gærkvöldi. Það var trú flestra spekinga að þetta væri gott tækifæri fyrir Stólana að stela heimavallarréttinum af vængbrotnu liði ÍR sem leikur fyrstu tvo leikina gegn Tindastóli án Ryan Taylor sem er í leikbanni. Þetta tókst strákunum, sem unnu mikilvægan sigur gegn baráttuglöðum ÍR-ingum, en þrátt fyrir að leiða nánast allan leikinn og hafa oft náð góðu forskoti þá hengu heimamenn inni í leiknum fram á síðustu sekúndur. Lokatölur 82-89 og Stólarnir 1-0 yfir í einvíginu.

Leikurinn var jafn fyrstu mínúturnar og staðan 10-11 fyrir Tindastól um miðjan fyrsta leikhluta. Hester var kraftmikill í byrjun og heimamönnum gekk illa að verjast honum. Það voru Axel, Pétur, Björgvin, Hester og Viðar sem voru í byrjunarliði Stólanna en Arnar kom inn fyrir Björgvin um miðjan leikhlutann. Hann var fljótur að láta til sín taka, setti niður þrist, staðan 12-19 og Stólarnir komnir með smá forskot. Staðan var 13-22 að loknum fyrsta leikhluta.

ÍR-ingar komu betur stemmdir til leiks í öðrum leikhluta og minnkuðu muninn í fjögur stig, 19-23, en þá skilaði Björgvin fimm stigum fyrir Stólana, Arnar setti tvö víti og Björgin bætti við einum þristi til áður en Arnar gerði laglega körfu og gerði tólfta stig Tindastóls í röð – staðan 19-35. Þá urðu Stólarnir værukærir og Breiðhyltingar komu sér aftur inn í leikinn og staðan 30-38 í hálfleik.

Pétur, sem var við frostmark í skotum í leiknum, hóf síðari hálfleik með því að setja niður þrist, einu körfu sína í opnum leik. Stólarnir voru sterkari aðilinn megnið af þriðja leikhluta og eftir þrist frá Arnari var munurinn orðinn 18 stig, 40-58, þegar tólf og hálf mínúta var til leiksloka. Breiðhyltingar gáfust ekki upp og gerðu sex síðustu stig þriðja leikhluta og voru aftur búnir að klóra sig inn í leikinn. Staðan 46-58.

Spenna fram á síðustu sekúndur

Heimamenn höfðu hitt illa allan leikinn og Stólarnir lengstum spilað góða vörn gegn þeim. Tilfinningin var því sú að ef ÍR-ingar færu að finna körfuna betur þá gætu þeir komið sér inn í leikinn. Sú varð raunin. Það voru hinsvegar Tindastólsmenn sem hófu fjórða leikhluta vel. Davenport lagði boltann í körfu ÍR og Viðar bætti við þristi og munurinn 17 stig. Danero Thomas, sem var frábær í liði heimamanna, setti þá þrist og í kjölfarið fylgdu tveir þristar frá Hákoni Erni og Trausta Eiríks og skyndilega var munurinn kominn niður fyrir tíu stig. Þetta gaf heimamönnum aukna trú og næstu mínútur sönnuðu leikmenn þá þreyttu klisju að körfubolti sé leikur áhlaupa. Thomas minnkaði muninn í sjö stig (57-64) en þá kom góður kafli Stólanna sem gerðu næstu sex stig (57-70), ÍR svaraði með sjö stigum (64-70) en næstu þrjár körfur Tindastóls voru utan 3ja stiga línunnar; Arnar með tvær og Axel eina. Hester breytti stöðunni í 70-81 þegar tvær mínútur voru eftir en ÍR liðið neitaði að gefast upp. Munurinn var kominn í fimm stig þegar 50 sekúndur voru eftir og lið Tindastóls var kærulaust með boltann. Tíminn var hinsvegar naumur fyrir ÍR og þeir urðu að brjóta hvað eftir annað á Pétri til að eygja tækifæri á að jafna. Pétur var öryggið uppmálað á línunni og landaði sigrinum að lokum.

Svona leikir þar sem annað liðið er talið veikara fyrirfram geta oft reynst snúnir. ÍR-ingar eru margbúnir að sanna í vetur að þeir eru engin lömb að leika sér við og þrátt fyrir að einhverjir spekingar hafi ætlast til 30 stiga stórsigurs Stólanna á vængbrotnum ÍR-ingum þá var það aldrei í spilunum. Engu að síður voru Tindastólsmenn kærulausir á köflum og hleyptu heimamönnum ítrekað inn í leikinn þegar þeir virtust við það að stinga af. Það er staðreynd að allir fjórir leikir Tindastóls og ÍR í vetur hafa einkennst af baráttu og þeir hafa verið hnífjafnir og spennandi. Það má reikna með framhaldi á því í næstu leikjum.

Tölfræði af vef KKÍ >

Sigtryggur Arnar var dýrmætur í gærkvöldi. Hann gerði 25 stig og sumar körfurnar algjörlega upp úr engu. Hester byrjaði vel en ÍR-ingum gekk betur að loka á hann þegar á leið. Hann skilaði 20 stigum og fimm fráköstum. Björgvin Hafþór átti einn sinn besta leik í vetur og skilaði 12 stigum, Pétur var með 10 stig og sjö stoðsendingar og Viðar var með 9 stig. Axel Kára batt vörnina vel saman, gerði 7 stig og á meðan hann var inná unnu Stólarnir með 21 stigi! Helgi Rafn, Friðrik og Davenport gerðu 2 stig hvor og þó fæstir séu nú hrifnir af Davenport sem leikmanni þá hirti kappinn engu að síður átta fráköst, líkt og Axel.

Í liði ÍR var Danero Thomas mjög öflugur og skilaði 33 stigum og níu fráköstum. Matthías Orri kom næstu með 13 stig en hann hefur ekki verið að hitta vel upp á síðkastið og því hélt hann áfram í gær. Á meðan hann var inná tapaði ÍR með 15 stigum.

Næsti leikur verður í Síkinu sunnudagskvöldið 8. apríl. Áfram Tindastóll!