Snilldarleikur Stólanna gegn gömlu góðu Vesturbæingunum

Frábær stemning í Síkinu. Stuðningsmenn fögnuðu sigrinum vel ásamt leikmönnum Tindastóls að leik lok…
Frábær stemning í Síkinu. Stuðningsmenn fögnuðu sigrinum vel ásamt leikmönnum Tindastóls að leik loknum og ætlaði fólk varla að yfirgefa Síkið. MYND: HJALTI ÁRNA

Stórleikur 20. umferðar Dominos-deildarinnar fór fram í Síkinu í kvöld. Óhætt er að segja að mikil eftirvænting hafi ríkt hjá stuðningsmönnum Tindastóls fyrir leikinn og stemningin í Síkinu sjóðheit og hressandi. Leikurinn reyndist hin besta skemmtun fyrir heimamenn sem fóru á kostum í vörn og sókn og sigruðu Íslandsmeistara KR af fádæma öryggi. Lokatölur 105–80 og allir með!

Leikurinn fór vel af stað, bæði lið voru vel með á nótunum. Það var kannski áhyggjuefni fyrir Stólana að Jón Arnór virtist í gamalkunnu stuði en það tókst nú að skrúfa fyrir þá flóðgátt fljótt og örugglega. Sigtryggur Arnar var mættur til leiks á ný eftir mánaðarhvíld og hann var fljótur að finna taktinn. Liðin skiptust á um að hafa forystuna framan af en í stöðunni 18–19 hrukku Stólarnir í gang og gerðu 11 stig í röð og Pétur þar af fimm. KR-ingar löguðu stöðuna þegar Björn Kristjáns setti niður tvö víti. Staðan 29-21 að loknum fyrsta leikhluta.

Hart var barist í upphafi 2. leikhluta og báðum liðum gekk illa að finna körfuna. Kendall Pollard sýndi síðan styrk sinn og gerði nokkrar körfur þegar hann kom inn og minnkaði muninn í 35–30. Þá fann Viðar fjölina sína í bláhorninu og gerði tvo þrista í röð og góðar körfur frá Hester og þristur frá Axel komu heimamönnum í nokkuð þægilega forystu, 48–35, en enn áttu Vesturbæingar síðustu körfu leikhlutans og staðan 48–37 í hálfleik.

Hester hélt uppteknum hætti í byrjun síðari hálfleiks og svaraði öllum athöfnum KR-inga. Þristur frá Arnari kom Stólunum síðan 15 stigum yfir, 57–42, og þrjú víti frá Pétri fylgdu í kjölfarið og meistararnir í tómu tjóni. Þeir mættu aðeins með tíu menn til leiks og ungu piltarnir, Arnór Hermanns og Vilhjálmur Jónsson, fengu ekkert að láta ljós sín skína fyrr en síðustu mínúturnar, þó svo að þreytubragur væri á eldri mönnunum snemma í leiknum. Stólarnir voru að spila frábæra vörn og Israel Martin skipti ótt og títt og heimamenn því með ferska fætur á vellinum og allir með sín hlutverk á hreinu. Nema kannski Davenport sem ekki var að stíga nógu vel út í Brynjar Björn undir lok þriðja leikhluta og það var ekki að sökum að spyrja – kappinn setti niður fjóra þrista á skömmum tíma undir lok þriðja leikhluta og í byrjun þess fjórða. Það hafði svo sem lítið að segja því Pétur átti svellkaldan flautuþrist undir lok þriðja leikhluta til að koma muninum í 20 stig. Kristófer Acox minnkaði muninn í 14 stig, 81–67, þegar sjö mínútur voru eftir en þá kom 8–2 kafli hjá Stólunum, þar á meðal tveir þristar frá Axel, og KR-ingar lögðu árar í bát.

Á lokamínútunum sýndu Stólarnir fína takta og Hester og Björgvin tróðu báðir með tilþrifum. Lokatóninn sló síðan Helgi Margeirs með gamalkunnum þristi á síðustu sekúndunni og skagfirsk flenging því staðreynd, svo vitnað sé í orð Jóns Arnórs að leik loknum.

Eins og oft áður upp á síðkastið þá var hér um að ræða frábæran liðssigur hjá Stólunum. Allir 12 tóku þátt í leiknum og komu með gott framlag til sigursins en ellefu leikmenn skoruðu í kvöld. Andinn í liði Tindastóls virðist frábær þessa dagana og stuðningsmenn eru meira en lítið stoltir af sínum mönnum. Það var áhyggjuefni að sjá Pétur fara meiddan af velli undir lok leiks en hann virtist hafa snúið sig á ökkla. Pétur spilaði eins og höfðingi og leiddi lið sitt. Hann gerði 15 stig og átti fimm stoðsendingar. Hester var þó stigahæstur með 26 stig og hann hirti níu fráköst. Arnar var með 13 stig og Viðar og Axel 11 hvor en Axel spilaði eðal vörn í leiknum. Þá var Davenport með átta stig og níu fráköst.

Í liði KR voru Acox og Pollard báðir með 17 stig en Kristófer hirti 12 fráköst og var atkvæðamestur gestanna. Brynjar Björn skilaði 16 stigum, Jón Arnór 10 en Pavel átti ekki skot á körfu þrátt fyrir að spila í 18 mínútur.

Tölfræði af vef KKÍ >

Með sigrinum skelltu Stólarnir sér í annað sætið í deildinni en þeir eiga næst útileik gegn Njarðvík og síðan Stjörnuna hér heima í síðustu umferð.