EM landsliða í fjölþrautum frjálsíþrótta

Ísak Óli bætti sig í Monzon.  Til hamingju !
Ísak Óli bætti sig í Monzon. Til hamingju !

 

Evrópukeppni landsliða í fjölþrautum frjálsíþrótta, 2. deild, fór fram í Monzon á Spáni helgina 1.- 2. júlí.

FRÍ  valdi eftirtalin sem keppendur Íslands.  Í karlaflokki:  Ísak Óli Traustason UMSS, Tristan Freyr Jónsson ÍR, Ingi Rúnar Kristinsson Breiðabliki og Gunnar Eyjólfsson UFA.  Í kvennaflokki: María Rún Gunnlaugsdóttir FH, Irma Gunnarsdóttir Breiðabliki og Helga Margrét Haraldsdóttir ÍR.  Þjálfarar sem hópnum fylgdu, voru Jón Sævar Þórðarson og Ragnheiður Ólafsdóttir.

Alls sendu 10 þjóðir 50 einstaklinga til leiks, 27 karla í tugþraut og 23 konur í sjöþraut, en til að árangur landsliðs teldist gildur, þurftu a.m.k. 3 karlar og 3 konur að ljúka þrautunum.

Í karlaflokki sigraði Martin Roe frá Noregi, hlaut 8144 stig.  Tristan Freyr varð í 4. sæti, með 7078 stig,  Ísak Óli í 14. sæti með 6502 stig, Ingi Rúnar í 16. sæti með 6353 stig og Gunnar í 24. sæti með 5295 stig.  Í kvennaflokki sigraði Lucia Slanickova frá Slóvakíu, hlaut 5816 stig.  María Rún varð í 9. sæti með 4998 stig, Irma í 11. sæti með 4927 stig, og Helga Margrét í 18. sæti með 4065 stig.

Í heildarstigakeppni landsliða urðu úrslit þessi:  1. Litháen 36.838 stig,  2. Lettland 35.261 stig,  3. Danmörk 35.026 stig,  4. Ísland 33.923 stig.  Önnur lið uppfylltu ekki skilyrðin um liðsþátttöku.  

Ísak Óli Traustason UMSS náði sínum besta árangri í tugþraut á mótinu, bætti sinn fyrri árangur um 105 stig, auk þess að setja persónuleg met í kringlukasti (35,05m) og í 1500m hlaupi (4:47,19mín).

Öll úrslit keppninnar má sjá HÉR !