Aðalfundur Júdódeildar Tindastóls

Frá júdóferð til Stokkhólms í sumar. Mynd: Ragnheiður Blöndal Benediktsdóttir.
Frá júdóferð til Stokkhólms í sumar. Mynd: Ragnheiður Blöndal Benediktsdóttir.

Aðalfundur Júdódeildar Tindastóls var haldinn í kvöld í matsal heimavistar FNV. Skýrsla formanns var lesin upp og samþykkt, reikningar lagðir fram til samþykktar og ný stjórn kosin.

Fundurinn hófst klukkan 19:30 með því að formaður setti fundinn formlega og lagði til að Sigurður Bjarni Rafnsson tæki að sér fundarstjórn, sem var einróma samþykkt. Áður en formanni var skipað að skýra frá starfi nýliðins árs var fundargestum boðið upp á ljúffenga súpu. Fundarmenn hlýddu því næst á mál formanns sem las upp annál ársins 2018. Eftir að hann hafði verið samþykktur lagði gjaldkeri fram reikninga ársins 2018 og voru þeir líka samþykktir mótþróalaust, en þá má sjá í viðauka annálsins.

Þá var komið að kosningu stjórnar en fyrirfram var ljóst að á henni yrðu nokkrar breytingar því að Magnús Hafsteinn Hinriksson og Helena Magnúsdóttir gáfu ekki lengur kost á sér í stjórn og Einar Örn Hreinsson gaf ekki áfram kost á sér til formennsku. Satt best að segja var það auðsótt mál að fá nýtt fólk inn í stjórn og þó að eftirsjá verði af þeim Magnúsi og Helenu þá kemur nýtt og gott fólk í þeirra stað.

Nýju stjórnina skipa Ingibjörg Ásta Sigurðardóttir formaður, Aðalbjörg Þorgrímsdóttir ritari, Grétar Karlsson gjaldkeri og þau María Dröfn Guðnadóttir, Annika Noack, Einar Örn Hreinsson og Jakob Smári Pálmason meðstjórnendur. Skoðunarmenn reikninga verða þær Ásta Birna Jónsdóttir og Helga Jónína Guðmundsdóttir.

Nýir stjórnarliðar eru boðnir velkomnir í öflugan hóp og þeim Helenu og Magnúsi þakkað fyrir óeigingjarnt starf síðustu fimm ár.

Eftir nokkrar umræður um komandi og liðin verkefni stjórnar Júdódeildarinnar sleit fundarstjóri fundi og gengu fundarmenn bjartsýnir út í vetrarkvöldið.

PS

Á fundinum kom fram spurning um liðinn Ýmsar tekjur í reikningum Júdódeildarinnar. Í töflunni hér fyrir neðan er frekari sundurliðun á þessum tekjulið.

Ýmsar tekjurUpphæð
Leiga á júdódýnum    47.000 kr
Tiltekt eftir árshátíð sveitarfélagsins    75.000 kr
Annað    11.326 kr
Alls 133.326 kr